„Ég hef áður fjallað um nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi. Ég hef talað fyrir því að það verði staðfest í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Ég hef lagt áherslu á það verði að nást sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar á flokksþingi Framsóknar um helgina.
„Orð eru til alls fyrst og tel ég mikilvægt nú þegar farin er af stað umfangsmikil og metnaðarfull stefnumótun í sjávarútvegi að í stað þess að ræða stærð einstakra hluta eða potta ræðum við um skiptingu auðlindarinnar í heild. Hvernig auðlindinni er ráðstafað og hvernig við tryggjum réttlæti, hagkvæmni veiða og þjóðarhag sem best,“ skrifaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra Vg í haust, en hún hefur skipað nokkrar nefndir um kvótakerfið.
Þessir tveir flokkar hafa ásamt Sjálfstæðisflokknum farið með sjávarútvegsmálin svo til allan tímann sem kvótakerfið hefur verið við líði. Kerfið er því sköpunarverk núverandi stjórnarflokka, ekki eitthvað sem þeir koma nú að og vilja breyta.
Kvótakerfið var sett á af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með lögum í desember 1983, en ríkisstjórnin hafði verið mynduð seint í maí það ár. Frá því að sú ríkisstjórn var mynduð eru liðin bráðum fjörutíu ár. Við getum kallað þetta tímabil kvótaárin.
Á þessi tímabili hafa núverandi stjórnarflokkar farið með sjávarútvegsráðuneytið í 38 ár og sjö mánuði. Viðreisn var með þetta ráðuneyti í ellefu mánuði í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur oftast farið með þennan málaflokk innan kvótatímabilsins eða í 21 ár og tíu mánuði. Það er rúm 55% tímans. Næst kemur Framsókn með 11 ár og sjö mánuði, sem gera rúm 29% tímabilsins. VG hefur farið með sjávarútvegsmálin 5 ár og fjóra mánuði, sem eru rúm 13% tímans.
Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir farið með sjávarútvegsmálin í tæplega 98% kvótatímans. Þessir þrír flokkar eru réttnefndir kvótaflokkarnir. Þeir hafa móta kvótakerfið eins og það er, aðrir flokkar hafa ekki komið að því svo nokkru nemi.