Leigja hjá óhagnaðardrifnum félögum langt yfir markaðsverði

Meirihlutinn í borginni bendir á mikla uppbyggingu húsnæðis og aukinn hlut íbúða hjá svokölluðum óhagnaðardrifnum leigufélögum. Leigan hjá þessum félögum er hins vegar oftar en ekki dýrari en á hinum almenna markaði.

Á fundi í ráðhúsi Reykjavíkur í morgun fór borgarstjórinn yfir uppbyggingaráform í húsnæðismálum og stöðuna á húsnæðisáætlun borgarinnar. Mikil uppbygging er fram undan, líkt og kynnt var í morgun. Kynningarfundurinn var endurómur af svipuðum fundum liðinna ára þar sem undirstrikuð er sú staðreynd að aldrei áður hafi verið fleiri íbúðir í byggingu.

Fyrirsögn húsnæðisáætlunar borgarinnar er: Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Samkvæmt ávarpi borgarstjórans er unnið ötullega eftir því leiðarljósi. Ef árangur borgarinnar í að tryggja öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði er mældur eftir þessum tveimur atriðum, húsnæðisöryggi og viðráðanlegu verði, er ekki hægt að finna mikinn árangur. Hugsanlega er ofuráhersla borgarstjórans og meirihlutans á að halda fram þeirri staðreynd að undanfarin ár hafi aldrei verið byggt eins mikið í Reykjavík einmitt til komin vegna þess að það er það eina sem er í rétta átt. En samt bara áleiðis.

Það er alkunna að árið 2018-19 blés ríkið til mikillar vinnu við að bregðast við ríkjandi neyð á húsnæðismarkaði í samvinnu við fjölmargar stofnanir, s.s. samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna. Það þótti því skjóta skökku við að dregið var úr húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík nánast samdægurs og niðurstöður ríkisins komu út og sýndu að óuppfylltur húsnæðisskortur var fimm til átta þúsund íbúðir á landinu. Hver sem ástæðan var, er staðreynd að dregið var úr framboði á húsnæði í borginni. Sem frambjóðendur þáverandi meirihluta kepptust við að réttlæta fyrir kosningarnar síðastliðið vor.

En nú segir Dagur að öldin sé önnur og bjart fram undan á leigumarkaði. Honum var tíðrætt um að hin óhagnaðardrifnu leigufélög væru að draga vagninn í uppbyggingu á húsnæði, og lofaði það framtak allt. Hann sagði að 30-35% af öllu húsnæði væri í þessum svokölluðu óhagnaðardrifnu félögum.

En hvað skyldi það nú þýða?

Borgarstjórinn nefndi félagið Búseta og Félagsstofnun stúdenta sem dæmi um óhagnaðardrifin leigufélög, burðarása í því sem kallað er félagslega rekinn leigumarkaður. Ef litið er inn á heimasíðu Búseta má þar finna nokkrar búseturéttaríbúðir og upplýsingar um verðlagningu á búseturétti og húsaleigu. Þegar leiguverð kemur í ljós að það er í takt við óregluvæddan hagnaðardrifinn leigumarkað. Það kostar t.d. 214. 859 kr. á mánuði að leigja 66 fermetra íbúð á Skógarvegi 16, eftir að fólk hefur greitt 9.636.859 kr. fyrir búseturétturinn. Húsaleigan er yfir markaðsverði á sambærilegum íbúðum í Reykjavík, þótt leigjandinn þurfi að afhenda Búseta tæpar tíu milljónir fyrir að fá lyklana.

Staðan hjá Félagsstofnun stúdenta er síst skárri. Við Brautarholt 7-9 er þrjátíu og átta fermetra íbúð til leigu á 166.399 kr. á mánuði. Fermetraverðið á þessari íbúð er því 4.400 kr. á mánuði. Markaðsleiga á 40 fermetra íbúð nýju húsnæði er hins vegar 3.700 kr. á mánuði fyrir hvernig fermetra samkvæmt verðsjá fasteigna hjá þjóðskrá. Félagsstofnun stúdenta er því með 20% hærri húsaleigu en er á óregluvæddum frjálsum leigumarkaði.

Óhagnaðardrifin leigufélög geta því leigt út íbúðir á markaðsverði og vel umfram það. Það er því enginn árangur falinn í því að þessi félög séu stærri hluti markaðarins, enginn árangur sem kemur leigjendum til góða.

Myndin er af bæklingi meirihlutans um hans sýn á húsnæðisvandann.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí