Samkvæmt yfirlýsingu Bankasýslunnar var meginmarkmið Bjarna Benediktssonar með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka að bréfin myndu hækka sem mest eftir útboðin. Hlutabréfin voru því seld á lágu verði í bæði skiptin. Og hækkuðu skiljanlega umtalsvert eftir útboðin af þeim sökum. Gríðarlegur auður var þannig fluttur frá almenningi til fárra fjármagnseigenda með miklum afslætti.
„Ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð og lokamagn söluferlisins byggði á heildstæðu mati þeirra upplýsinga sem fyrir lágu að virtum yfirlýstum markmiðum fjármála- og efnahagsráðherra með söluferlinu,“ segir í yfirlýsingunni. „Í því fólst einkum að tryggja hagkvæmni og þar með fjárhagslega hagsmuni íslenska ríkisins með verði í viðskiptunum að teknu tilliti til líklegrar verðþróunar með hlutabréf í Íslandsbanka á eftirmarkaði.“
Til að ná þessum markmiðum voru bréfin seld á undirverði svo þau myndu hækka sem mest dagana og vikurnar á eftir. Fæst af markmiðunum snúa að því að verja eign almennings, fá sem hæst verð fyrir eignina. Í raun er þess markmiðs ekki getið þegar Bankasýslan listar upp markmiðin:
- Dreift eignarhald og fjölbreytileiki í eigandahópi.
- Efling innlendra fjármálamarkaða.
- Aukin virk samkeppni á fjármálamarkaði.
- Að fjárfestar sem horfi til lengri tíma fjárfestinga yrðu fyrir minni skerðingu en skammtímafjárfestar.
- Langtímahagsmunir ríkissjóðs með tilliti til áhættu.
- Áhrif á eftirmarkað.
Samkvæmt þessu var þetta aðgerð í einkavæðingu þar sem aðal markmiðið var að koma eigninni úr opinberri eigu til einkaaðila, ekki að fá sem hæst verð fyrir eign almennings.
Það er erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja þetta. Þegar fólk selur íbúðina eða bílinn sinn vill það fá sem hæst verð, en lækkar ekki verðið svo kaupandinn hafi úr meira að spila, geti selt íbúðina eða bílinn með sem mestum hagnaði á eftirmarkaði. Að gróði hans örvi svo fleiri til að fara að braska með íbúðir og bíla. Og hagurinn af því muni síðan berast til þess sem seldi íbúðina upphaflega.
Til að ganga inn í þennan hugsunarhátt verður fólk að trúa fyrst einni helstu kennisetningu nýfrjálshyggjunnar, að eignum, fé og völdum sé betur komið í höndum hinna fáu ríku en hjá hinu opinbera, fjöldanum. Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka er þá vellukkuð ef tekst að koma hlutnum úr ríkiseigu yfir til einkafjárfesta, fólks sem á mikið og vill meira. Og best er að hlutirnir séu seldir á undirverði svo fjárfestarnir græði sem mest. Gróði fjárfesta er það sem keyrir áfram samfélagið, leiðir nýsköpun og vöxt. Þess vegna er það stórkostlegur árangur að selja Íslandsbanka með miklum afslætti. Í raun mætti halda því fram að því lægra sem verðið er því stærri væri sigur samfélagsins.
Þetta voru sömu rök og var beitt í fyrri einkavæðingu bankanna 2002-03. Þar var ekki horft til verðmætis bankana fyrir samfélagið heldur veðjað á að einkaeign bankanna myndi færa samfélagið stórkostlegan ávinning. Niðurstaðan varð hrun fjármálakerfisins, sem féll yfir samfélagið með stórkostlegum skaða fyrir fjöldann.
Þetta eru líka rökin sem voru notuð þegar nýeinkavæddir bankar hófu árás á íbúðalánamarkaðinn 2004. Fram að því hafði Húsnæðisstofnun og síðar Íbúðalánasjóður lánað á fyrsta veðrétt íbúða, upp að 65-70% verðmæti en bankarnir átt markaðinn þar fyrir ofan, upp að 90% eða svo. Þegar Íbúðalánasjóður hækkaði sitt veðhlutfall réðust einkavæddu bankarnir á allan markaðinn og nutu stuðnings stjórnvalda, sem töldu það framfaraskref að einkavæða með þessum hætti íbúðalánamarkaðinn. Íbúðalánasjóður var látinn lána bönkunum svo þeir gætu lánað til almennings og tekið yfir þennan markað. Niðurstaðan er 200-400 milljarða króna bakreikningur sem er að falla á almenning til viðbótar við þá 70 milljarða króna sem almenningur hefur þegar lagt til.
Þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti hugmyndir sínar um að láta hluta af skuldinni frá einkavæðingu íbúðalánanna falla á skattgreiðendur en stærri hluta á lífeyrisþega, nefndi hann ekkert um ástæðuna fyrir þessum bakreikningi vegna þess að hann sér ekki þessa ástæðu. Hann telur að einkavæðing íbúðalána hljóti að hafa verið góð og í raun séu engin takmörk fyrir hvað hún má kosta. Einkavæðing er markmið í sjálfum sér.
Þetta kemur skýrt fram á mati Bjarna á bankasölunni síðari. Honum finnst hún hafa tekist vel. Stórir hlutir hafi verið fluttir úr almannaeign til fjárfesta. Og í yfirlýsingu Bankasýslunnar kemur fram að þetta var alltaf meginmarkmiðið, ekki að fá raunvirði fyrir eignir almennings.
Það er óumdeilt að með fyrra og seinna útboðinu hafi mikil verðmæti verið flutt frá almenningi til fjárfesta. Það má karpa um hver hin eðlilega viðmiðun sé, en niðurstaðan er alltaf sú að Bjarni og Bankasýslan færðu fjárfestum gríðarleg verðmæti.
Hér má sjá verðþróun á gengi bréfa í Íslandsbanka frá fyrra útboðinu þegar bankinn var settur á markað með viðmiðunum, annars vegar verðþróun Arionbanka og hins vegar þróun úrvalsvísitölunnar:
Fyrst var 35% hlutur seldur á 79 kr. á hlut. Sé miðað við verðþróun á Arionbanka, sem er að mörgu leyti svipaður banki og Íslandsbanki, er ávinningur þeirra sem keyptu þennan hlut í dag 25,5 milljarðar króna. Ef við miðum við þróun úrvalsvísitölunnar er hagur kaupenda 38,7 milljarðar króna.
Síðan var 22,5% hlutur seldur á 117 kr. á hlut. Miðað við verðþróun Arionbanka er hagur kaupenda nú 5,7 milljarðar króna en 3,8 milljarðar sé miðað við úrvalsvísitöluna.
Samanlagt má því ætla að tilflutningur verðmætanna sé um 31,7 milljarðar króna miðað við Arionbanka og 42,5 milljarðar króna sé miðað við úrvalsvísitöluna.
Þetta er um það bil stærðarhlutföllin. Og þetta er það sem almenningur sér og er ástæða þess að mikill meirihluti hans er andsnúinn þessari sölu. En eins og sjá má af yfirlýsingu Bankasýslunnar og ummælum Bjarna þá nær þessi skilningur ekki til þeirra sem stóðu að sölunni. Þar var aldrei markmiðið að fá hæsta verð fyrir eign almennings heldur þvert á móti að koma þessum verðmætum til fjármagnseigenda þannig að fjármagnseigendur myndu græða sem mest.
Um fyrri einkavæðingu bankanna hefur verið sagt að það hafi verið bankarán fremur en bankasala. Og það á líka við um þessa seinni einkavæðingu. Í grunninn er þetta aðgerð um að flytja eignir almennings til hinna fáu og ríku.
Myndin er af stuttu viðtali Ríkissjónvarpsins við Jón Gunnar Jónsson forstjóra Bankasýslunnar í gærkvöldi.