Hagur útgerðarinnar um 679 milljarðar frá Hruni

Samanlagt hefur aukið eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja og útgreiddur arður til eigenda þeirra verið á núvirði 678,7 milljarðar króna frá Hruni. Á sama tíma hafa fyrirtækin borgað 126,6 milljarða króna til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar í formi veiðigjalda. Almenningur sem á auðlindina hefur því fengið 15,7% af arðinum, megnið fer til útgerðarinnar. Og mest af því til átta til tíu fjölskyldna.

Í nýju yfirliti Hagstofunnar yfir rekstur sjávarútvegsins kemur fram að hagnaður fyrirtækjanna í fyrra var álíka og á árunum eftir Hrun þegar lágt gengi krónunnar færði útgerðinni stórkostlegan hagnað og byggði upp eigið fé fyrirtækjanna. Sem mörg hver urðu tæknilega gjaldþrota í Hruninu vegna brasks eigendanna. Frá Hruni hefur eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja aukist um 484,1 milljarða króna á núvirði frá árslokum 2009 eða um 40,3 milljarða króna á ári að meðaltali.

Þetta sýnir vel hversu mikill gróðabusiness útgerðin er á Íslandi. Uppbygging eiginfjár er bættur hagur eigendanna eftir allan kostnað og fyrir utan það sem þeir greiða sjálfum sér í arð. Samkvæmt sjávarútvegsgrunni Deloitte hafa eigendur greitt sér á núvirði um 194,6 milljarða króna í arð frá Hruni, eða að meðaltali um 15,0 milljarða króna hvert ár. Og mjög vaxandi undanfarin ár.

Samanlagður hagur eigenda sjávarútvegsfyrirtækja er samtalan af þessu tvennu, auknu eigin fé og útgreiddum arði. Frá Hruni nemur þetta 678,7 milljörðum króna eða 55,3 milljörðum hvert ár.

Og þetta er hagur eigenda samkvæmt bókhaldið íslensku félagana. Eins og oft hefur komið fram og mjög skýrt í Samherjaskjölunum hefur stórútgerðin fært hagnaðinn úr landi með því að selja sjálfum sér afurðir á lágu verði svo stór hluti arðsins komi fram í sölufyrirtækjum í útlöndum, oftast skráðum í aflöndum þar sem auðvelt er að fela fé og komast undan skattgreiðslum. 55,3 milljarða króna árlegur hagur eigenda sjávarútvegsfyrirtækja af nýtingu auðlindar almennings er því aðeins hluti, sá sem er sýnilegur.

En hvað fær almenningur sem á auðlindina?

Yfir sama tíma hefur útgerðin greitt 126,6 milljarða króna í veiðigjöld á núvirði, sem er leiga af auðlindinni. Það eru 10,6 milljarða króna að meðaltali, mjög lækkandi í tíð núverandi ríkisstjórnar. Eigendur auðlindarinnar og fyrirtækjanna hafa því samtals fengið til sín 805,3 milljarða króna frá 2008 til 2021. Af þessu fengum við, eigendur auðlindarinnar 15,7% en eigendur fyrirtækjanna, fyrst og fremst átta til tíu fjölskyldur, 84,3%.

Þetta er svolítið kostuleg skipti. Og ástæða þess að mikill meirihluti landsmanna er ósáttur við kvótakerfi, flestir alfarið á móti því. Meginþorri almennings upplifir sig svikinn. Stjórnvöld standa hins vegar vörð um kerfið, gegn vilja mikils meirihluta almennings. Stjórnvöld standa með fjölskyldunum sem fá 84,7% af arðinum af auðlindinni, hinum fáu en ekki með fjöldanum sem fær aðeins 15,7% í sinn hlut.

Ef við ímyndum okkur aðra skiptingu, t.d. 50/50, þá hefði almenningur fengið 276 milljörðum króna meira til sín eða 23 milljarða króna ár hvert. Og fjölskyldurnar fáu væri eftir sem áður vellauðugar, valdamiklar og drottnandi í íslensku samfélagi.

Eitt ber að hafa í huga varðandi aukið eigið fé fyrirtækjanna í sjávarútvegi, fyrir utan það að hluti arðsins kemur fram í félögum skráðum í aflöndum. Það eru afskriftir sem útgerðin fékk eftir Hrun. Margir eigendur útgerðarfyrirtækja höfðu skuldsett fyrirtækin, og þar með kvótann, til að braska í óskyldum rekstri. Sumir voru meðal stærri hluthöfunum í bönkunum sem féllu, aðrir höfðu keypt fyrirtæki í útlöndum á skuldsettri yfirtöku og aðrir keyptu upp bílaumboð, verslanir og allskonar á Íslandi.

Samanlagt eigið fé sjávarútvegsins var neikvætt af þessum sökum um 146,3 milljarða króna í árslok 2008. Ári síðar var eigið fé neikvætt um 765 m.kr. Rúmar 145 milljarðar króna af skuldum höfðu gufað upp. Að hluta gátu fyrirtækin greitt niður skuldir sínar vegna þess að gengi krónunnar féll og hagur fyrirtækjanna batnaði í takt við það, afurðaverð hækkaði mikið í íslenskum krónum en kostnaðurinn stóð í stað. En þótt áhrifin af þessu hafi verið mikil, fé streymdi inn í útgerðina, þá voru þau ekki svona mikil og skyndileg. Þessi mikla breyting á eigin fé fyrirtækjanna benda til stórkostlegra afskrifta á lánum. Bankarnir ákváðu að taka ekki til sín fyrirtækin, og þar með kvótann, og gáfu eigendum eftir lánin og þar með kvótann sem þeir höfðu lagt undir í spilavítinu fyrir Hrun.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí