Orð ársins eru víða valin og ekki síst af orðbókum, sem í dag eru kannski frekar orðavefir. Þessi orð lýsa oft tíðarandanum. Þannig valdi forstöðufólk ensku orðabókarinnar Collins orðið permacrisis sem orð ársins, en það mætti þýða sem síkrísa og lýsir ástandi eins og við upplifum þegar stjórnvöld kynna fyrir okkur hvert óeðlilega ástandið á fætur öðru. Á eftir farsótt kom stríð og síðan verðbólgu, orkukreppa og hækkandi vextir. Og allt magnast þetta upp þar til launafólk semur af sér allar hækkanir af ótta við að auka við krísuna.
Gaslýsing var valið orð ársins hjá orðbók Merriam-Webster eða gaslighting upp á ensku. Það er skilgreining á þvín þegar einhver fær annan til að efast um eigin upplifun, ekki síst þegar karlar draga frásögn og upplifun kvenna í efa.
Hjá Oxford orðabókin varð goblin mode fyrir valinu en líklega mætti þýða það sem jarðálfastand. Það nær utan um ástand fólks eftir langdvalir heima hjá sér þegar það hefur hætt að láta undan öllum samfélagskröfum um ásættanlega hegðun og útlit.
Gesellschaft für deutsche Sprache, sem er félag til varnar og útvíkkun þýskrar tungu, velur líka orð ársins. Í ár varð zeitenwende fyrir valinu, sem merkir þáttaskil. Olaf Scholz kanslari notaði orðið til að lýsa þeim breytingum sem urðu við innrás rússneska hersins inn í Úkraínu.
Ástralar völdu teal sem orð ársins. Þetta er stokkönd en þó öllu heldur heiti á litnum á höfði karlfuglsins, fagur og skær blágrænn litur. Og merkingin í Ástralíu er hægri-umhverfisstefna þar sem blár litur íhaldsins og grænn litur umhverfisverndar renna saman.
Japanir velja tákn ársins. Í ár varð 戦 fyrir valinu. Í okkar ritmáli væri þetta skrifað sem sen eða ikusa og stendur fyrir stríð eða orrustu.
Myndin er skýringarmynd Collins um síkrísuna, þar sem krísurnar koma á færibandi svo við erum alltaf föst og komumst hvergi.