Ardern kveður, kerfisútlagar, smánun láglaunakvenna og Pussy Riot

Í feminískum fréttum var það helst að ungur kvenleiðtogi yfirgaf stjórnmálin, að nígerísk kona hefur dvalið hér í fimm ár án allra réttinda, að forréttindafólk smánaði kjarabaráttu láglaunakvenna í fjölmiðlum og að sýningu Pussy Riot hefur verið framlengt vegna aðsóknar.

Jacinda Ardern hættir

Einn af yngstu þjóðarleiðtogum seinni ára Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands tilkynnti á landsfundi nýsjálenska verkamannaflokksins í síðustu viku að hún hygðist segja af sér embætti á næstu vikum og myndi ekki gefa kost á sér til að leiða verkamannaflokkinn í komandi kosningum næsta haust.

Í ávarpi sínu sagði Arden að hún væri ekki „með nóg á tankinum“ eða ætti ekki næga orku til að halda starfi sínu áfram af þeim krafti sem það krefðist. Hún sagði síðustu fimm ár hafa verið þau mest gefandi á hennar æfi en jafnframt hafi þau verið krefjandi. Hún væri ekki að segja starfinu lausu vegna þess að það væri of erfitt heldur þekkti hún sinn vitjunartíma. Forréttindunum fylgdi sú ábyrgð og skylda að meta hvenær maður er rétta manneskjan til að leiða slíkt starf og hvenær ekki.

„Ég er manneskja og pólitíkusar eru manneskjur. Við gefum allt sem við getum eins lengi og við getum þar til tími er kominn til að hætta. Og fyrir mig er sá tími kominn,“ sagði Arden.

Í síðustu þingkosningum árið 2020 leiddi Arden verkamannaflokkinn til stórsigurs og hafa fjölmiðlar lýst henni sem einstaklega mannlegur, vingjarnlegur, yfirvegaður en ákveðinn stjórnandi. Þá vakti það mikla athygli þegar þriggja ára dóttir hennar, Neve fékk að fara með mömmu sinni á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 2018. Neve skráði sig þar með í sögubækurnar sem fyrsta barnið sem fékk að mæta á slíka samkomu.

Myndin af Arden sem ungri móður í hlutverki þjóðarleiðtoga á borð við Vigdísi Finnbogadóttur eða Katrínu Jakobsdóttur og kannski núna hinnar barnshafandi Kristrúnar Frostadóttur er eflaust rækileg sprunga í glerþakið að mati borgaralegra femínista og mun verða minnst í sögu kvennabaráttunnar sem ákveðin helgimynd. Fólk er þó ekki sammála um farsæld hennar í starfi síðustu árin en sjálf stjórnmál hennar eru síður rædd eins og á gjarnan við um konur í stjórnmálum í dag sem stíga inn í tilbúin hlutverk feðraveldisins. Arden rak afar harða einangrunarstefnu á fyrstu árum kórónuveirufaraldursins og þótti taka vel á hryðjuverkaárásunum í Kristchurch en bágborið ástandið á húsnæðismarkaðnum, barnfátækt og önnur félagsleg vandamál fengu að grassera í hennar stjórnartíð.

Kerfisútlagar

Einn jaðarsettasti hópur fólks á Íslandi í dag eru hópur fólks sem hefur verið synjað um hæli hér á landi en kemst ekki af landi brott sökum ýmissa ástæðna. Í viðtali við RUV lýsti Rauði krossinn yfir þungum áhyggjur af örlögum þessara kerfisútlaga en margir búa hér árum saman án allra réttinda og hafa litla sem enga framfærslu.

Rauði krossinn telur að um 64 einstaklingar séu strandaglópar hér á landi eftir að hafa fengið synjun um hæli en flestir þeirra eru frá Írak eða Nígeríu.

Karla Johnson, verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum segir í viðtali við RUV í vikunni ýmsar ástæður liggja þar að baki svo sem skortur á pólitískum tengslum milli landa. Þá hafi sum stjórnvöld hafnað því að taka við fólki eftir brottvísanir og í sumum tilfellum skortir ferðaskilríki sem ekki er hægt að sækja til annara landa nema eiga ferðaskilríki. Í þessum tilvikum er um að ræða fólk utan Schengen og því ekki hægt að beita Dyflinarreglugerðinni til að vísa fólki aftur til þess ríkis sem það hafði viðkomu í áður.

Fólk í þessari stöðu fær hvorki kennitölu né gild ferðaskilríki, fær ekki að opna bankareikninga né fær það atvinnuleyfi eða að ganga í skóla eftir 18 ára aldur. Það hefur ekki aðgang að heilsugæslu né tannlækningum heldur einungis aðgengi að bráðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Einnig eru dæmi um að fólk í þessum kringumstæðum eignist börn hér á landi sem fá þá ekki heldur varanlega kennitölu og eru í raun ríkisfangslaus.

RUV ræddi við Blessun Uzoma frá Nígeríu en hún hefur verið án réttinda og í algjörri biðstöðu í fimm ár. Hún býr í úrræði fyrir hælisleitendur en er án flestra réttinda utan þess að fá 40 þúsund krónur á mánuði til framfærslu. Henni líður eins og heimurinn hati hana. Hana langar til að vinna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins en getur ekki gert það kennitölulaus. Blessun óttast einnig að lenda í vændi en hún hraktist milli landa sem vændiskona í nokkur ár sem hún segir hafa verið hræðilega reynslu. Hún getur ekki sofið nema taka svefnlyf og hún glímir við stöðugar sjálfsvígshugsanir. Staða sem þessi er stöðug hringrás þess að lifa af í gegnum daginn án þess að neitt gerist í stöðunni. Talvan segir einfaldlega nei!

Valdafólk smánar láglaunafólk

Ráðherrar og valdafólk í ferðaþjónustunni stillir sér upp gegn Eflingu og umræðan snýst oft um fólk og taktík fremur en raunveruleg kjör láglaunafólks.

Athygli vakti á dögunum að Lilja Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra fékk dagskrárvald fjölmiðlanna til að lýsa yfir miklum áhyggjum af hugsanlegu verkfalli Eflingarfólks á Íslandshótelum. Hún sagðist hafa miklar áhyggjur af því ef ferðaþjónustan þyrfti aftur að fara í gegnum einhver svipugöng líkt og í kórónuveirufaraldrinum.

Umræðan um fyrirhugað verkfall eflingar hefur verið afar óvenjuleg en athygli sósíalískra femínista var einnig vakin þegar yfirmaður hótelstarfsfólks hóf að tjá sig fyrir hönd starfsmanna og hélt því fram að Efling væri ekki að veita aðildarfélögum sínum réttar upplýsingar. Fjölmiðlar ræða fyrirhugaðar aðgerðir Eflingar við fólk í valdastétt fremur en láglaunafólkið sjálft og endalaust er reynt að vekja máls á atriðum sem koma sjálfri kjarabaráttunni ekki við og verkfæri verkalýðsfélaga eins og verkfallsrétturinn gerður að einhverju óforskömmuðu athæfi. Aldrei fylgir sögunni hvað áunnist hefur í réttindabaráttu launafólks í gegnum verkföll né er horft til mismunandi kjara og vinnuaðstæðna sem kalla á mismunandi samninga. Í dag hefur ríkissáttasemjari lagt fram miðlunartillögu sem formaður Eflingar kallar „óskapnað sem miðlar engu”. Tillagan gengur út á að neyða 25% félagsmanna Eflingar til að kjósa um samning SGS.

Sýning Pussy Riot framlengd

Sýningin Flauelshryðjuverk – Rússland Pussy Riot í Kling & Bang hefur vakið mikla athygli en um er að ræða fyrstu yfirlitssýningu á gjörningum og listaverkum þessa þekkta rússneska andófslisthóps. Vegna mikillar aðsóknar hefur sýningin verið framlengd til 29. janúar.

María (Masha) Alyokhina forsprakki Pussy Riot, mun halda leiðsögn um yfirlitssýningu listhópsins í Kling & Bang í kvöld fimmtudaginn 26. janúar kl. 20.00.

Fjöllistahópurinn vakti heimsathygli þegar þær frömdu pólitíska gjörning „Pönkbæn: María Mey, hrektu Pútín á brott“ í kirkju Krists í Moskvu árið 2012

Masha segir í viðtali við Fréttablaðið við opnun sýningarinnar í Kling & Bang: „Fyrir margt fólk er Rússland núna bara hryðjuverkaríki og fyrir það var það svartur ókannaður blettur á landakortinu. Við erum að opna rifu á gluggann um það hvernig Rússar eru að mótmæla Pútín og hvernig við höfum reynt að vekja athygli á því sem er í gangi þar í landi, sérstaklega eftir að við eyddum tveimur árum í fangelsi.”

Það má sjá og heyra umræður Maríu Pétursdóttur, Margrétar Pétursdóttur og Söru Stef. í spilaranum hér að ofan.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí