Engar covid álagsgreiðslur í leik- og grunnskólum

Í svari við fyrirspurn um hvort til stæði að greiða framlínustarfsfólki í leik- og grunnskólum Reykjavíkur álagsgreiðslur vegna covid kom fram að ekkert slíkt hafi verið gert. Þó hafi „glaðningar“ verið veittir í kringum jól og páska. Jafnframt hafi starfsfólk verið hvatt til „jákvæðra viðhorfa“ til að létta álag.

Í miðjum heimsfaraldri, 24. febrúar 2022 lagði fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands fram fyrirspurn um hvort til stæði að greiða framlínustarfsfólki sem starfar í leik- og grunnskólum álagsgreiðslur vegna covid. Jafnframt var spurt hver rökin væru ef slíkt væri ekki gert.

Svar barst tæpu ári síðar, 10. janúar sl. Í því kom fram að engar álagsgreiðslur hafi verið veittar til starfsfólksins en þó hafi verið veittir „glaðningar“ í kringum jól og páska. Auk þess hafi fólki verið boðið á óvænta viðburði, veitingar á starfsstaðnum og „fleira.“ Þar að auki var lögð áhersla á teymisvinnu kennara og starfsfólks. Þau hafi verið hvött til „jákvæðra viðhorfa“ til að létta álag og horfa björtum augum til framtíðar.

Svarið í heild sinni birtist svona frá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:

Kórónuveirufaraldurinn hafði svo sannarlega víðtæk áhrif á einstaklinga og störf víða um samfélagið, ekki síst í heilbrigðisgeira og í skóla- og frístundastarfi. Á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs voru stjórnendur hvattir til að leggja kapp á að gera sitt besta til að draga úr álagi á starfsstöðvunum. Það var meðal annars gert með því að nýta mögulegan sveigjanleika sem myndaðist, t.d. við hólfanir, og eins var verkefnum forgangsraðað og einhverjum frestað til að draga úr álagi. Fundahöld voru í lágmarki og í grunnskólum var m.a. áhersla lögð á að nýta möguleika fjarsamvinnu kennara við undirbúning kennslu. Þá lögðu stjórnendur áherslu á að sýna starfsfólki þakklæti og stuðning, svo sem með glaðningi í kringum jól og páska, óvæntum viðburðum, veitingum á starfsstaðnum og fleira. Lögð var áhersla á teymisvinnu kennara og starfsfólks og hvatt til jákvæðra viðhorfa til að létta álag og horfa björtum augum til framtíðar.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí