Fréttamiðillinn turisti.is segir að á fjórða tug flugstjóra Play hafi sótt um vinnu hjá Icelandair þegar það félag auglýsti laus störf., en um 70 flugstjórar eru hjá Paly. Launakjör eru betri hjá Icelandair, en flugstjórar hjá Play eru ekki í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna heldur í Íslenska flugstéttafélaginu, sem ASÍ segir að sé gult stéttarfélag stýrt af atvinnurekendum.
Í Túrista kemur fram að munurinn á launum flugmanna Icelandair og Play sé þónokkur. Grunnlaun flugmanna Play eru 470 til 590 þúsund krónur á mánuði á meðan Icelandair borgar á bilinu 850 til 870 þúsund kr. Ofan á þessi laun bætast síðan ýmsar greiðslur. Til viðbótar við hærri laun þá mun vinnuálagið almennt vera minna hjá Icelandair að sögn Túrista og það félag býður jafnframt upp á sætaferðir til og frá Keflavíkurflugvelli. Áhafnir Play þurfa sjálfar að koma sér út á flugvöll.
Síðan er bent á að eitt af því sem stjórnendur Play hafi gert töluvert úr er hversu lágur einingarkostnaður félagsins er, þ.e. kostnaðurinn á hvern floginn kílómetra. Þessi stærð er notuð til að bera saman rekstur flugfélaga en þar vegur launakostnaður þyngst því kostnaður við kaup á eldsneyti er dreginn frá. Á síðasta fjórðungi 2022 var einingarkostnaðurinn hjá Play þriðjungi lægri en hjá keppinautnum.
Eftir uppgjör síðasta árs hefur gengi Play í kauphöllinni fallið. Það er nú undir útboðsgenginu, bæði í fyrsta útboðinu og því sem stærstu hluthafarnir tóku þátt í síðastliðið haust. Miðað við gengið í dag hafa hluthafar tapað um 4,7 milljörðum króna á Play.