Samherji mun eignast laxeldið á landi

Samherji fiskeldi ehf áformar að reisa sextíu milljarða króna laxeldisstöð á landi á Reykjanesi og auka þar með innlenda framleiðslu um meira en helming frá árinu 2021. Húsnæðið sem hýsa á eldisstöðina er 250 þúsund fermetrar af byggingum og mun stöðin verða staðsett í Auðlindnagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun.

Fiskeldisstöðin sem Samherji hyggst reisa við Reykjanesvirkjun þykir vel staðsett vegna góðs aðgengis að innviðum og sjó auk þess sem sjávarhiti er þar hár. Fundað var um málið í Reykjanesbæ í dag þegar umhverfismatsskýrsla VSÓ ráðgjafar um framkvæmdina var kynnt. Markmið fyrirtækisins eru að framleiða um 40 þúsund tonn af Laxi á ári sem er helmingi meira en öll landsframleiðsla af landeldi tegundarinnar árið 2021.

Mikið af jarðsjó og vatni þarf í framleiðsluna að sögn Jóns Kjartans Jónssonar, framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis, eða allt að þrjátíu þúsund sekúndulítra af jarðsjó ásamt þrjú þúsund og tvö hundruð sekúndulítra af ylsjó sem tekinn yrði frá Reykjanesvirkjun. Að sögn Jóns verður lítið gengið á ferskvatn.

Áhrif á landslag, jarðmyndanir og fornleifar verða samkvæmt umhverfismatsskýrslunni á bilinu óveruleg yfir í að vera fremur neikvæð og er það aðallega vegna rasks á friðuðu eldhrauni. Samfélagslegu áhrifin yrðu þá samkvæmt skýrslunni jákvæð.

Grunnvatnslíkan ÍSOR sýnir að ef vinnslan verður á Norðurslóð muni það valda allt að 1,5 metra niðurdrætti vatnsborðs við Litlu-Sandvík og yrði mestur á fyrirhuguðu vinnslusvæði fiskeldisins. Líkanið sýnir einnig að vinnslan muni valda 20 cm niðurdrætti vatnsborðs á sjótökusvæði Reykjanesvirkjunar og 40-50 cm við vatntökuholur við Sýrfell. Seltustig grunnvatns (jarðsjávar) á svæðinu mun þá breytast við vinnslu Samherja fiskeldis og mælast mestar nálægt fyrirhuguðu vinnslusvæði á Norðurlóð. Svæði þar sem seltubreytinga yrði vart næði til suðurs að sjótökusvæði Reykjanesvirkjunar og til norðurs eftir strandlengjunni. Það myndi þó ekki ná upp að Sýrfelli þar sem borholur fyrir ferskvatn eru staðsettar. Í skýrslunni segir að grunnvatnslíkanið sé háð óvissu vegna takmarkaðra rannsókna á svæðinu.

Eigendur Samherja fiskeldis vilja hefja framkvæmdir á þessu ári og stefna að fullri vinnslu árið 2032. Þar yrðu starfandi við eldisgarðinn rúmlega hundrað starfsmenn og talið er að verkefnið muni kosta yfir sextíu milljarða.

Samherji fiskeldi ehf. rekur þegar eina klakfiskastöð að Sigtúnum í Öxarfirði, eina klakstöð fyrir hrogn að Núpum í Ölfusi, þrjár seiðastöðvar og tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju, aðra á Stað við Grindavík og hina að Vatnsleysuströnd. Fyrirtækið rekur einnig strandeldistöð fyrir lax að Núpsmýri í Öxarfirði. Allt eru þetta landeldisstöðvar sem nýta jarðvarma og notast við borholuvatn, ýmist ferskt eða ísalt við framleiðsluna.

Áform Samherja um að hefja stórtækt landeldi á laxi hafa verið í bígerð um nokkurra ára skeið en samningur við HS Orku var undirritaður í júní 2021 og sagði Þorsteinn Már Baldvinsson í viðtali um það leyti að ekki væru meira en fjögur til fimm ár í það að þrjú af sex stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi, mælt í veltu, yrðu laxeldisfyrirtæki. Hingað til hafi þau að stærstum hluta verið í eigu Norðmanna en Samherji ætlar sér að eignast stóran skerf í þeirri köku.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí