Stjórn Strætó samþykkir aukna útvistun

Stjórn Strætó samþykkti á fundi sínum 20. janúar sl. að skoða frekari útvistun á akstri. Verktakar muni þannig í enn meiri mæli sjá um akstur en nú er. Trúnaðarmaður vagnstjóra hjá Sameyki furðar sig á þessum áætlunum.

Á fundinum var rætt um skort á vögnum hjá Strætó. Á undanförnum árum hefur byggðasamlagið varla fjárfest neitt í nýjum vögnum. Frekar hefur verið treyst á að einkaaðilar séu með eigin vagna og sendi Strætó reikninginn. Ákvörðun var tekin um að halda áfram á þeirri braut í stað þess að Strætó kaupi og reki eigin strætisvagna. Tekjuáætlun félagsins byggir á því „að hægt sé að halda upp fullri þjónustu á þeim leiðum sem keyrðar eru.“

Vegna ástands flotans hafi þurft að fella niður um 50 ferðir á síðasta einum og hálfa mánuði, sem sé „óviðunandi.“ Meginskýring ástandsins er sögð vera að lítið sé fjárfest í vögnum vegna fjárhagsstöðu. Hins vegar var samþykkt að skoða nánar hvort verktakar gætu keyrt fleiri leiðir í staðinn í stað þess að endurnýja flotann. Því liggur fyrir að stjórninni finnst peningnum þannig betur varið. Með því gæti þjónustustig orðið „viðunandi“.

Í stjórn Strætó sitja: Magnús Örn Guðmundsson (Sjálfstæðisflokkurinn) fyrir hönd Seltjarnarness, Alexandra Briem (Píratar) fyrir hönd Reykjavíkur, Hrannar Bragi Eyjólfsson (Sjálfstæðisflokkurinn) fyrir hönd Garðabæjar, Andri Steinn Hilmarsson (Sjálfstæðisflokkurinn) fyrir hönd Kópavogs, Lovísa Jónsdóttir (Viðreisn) fyrir hönd Mosfellsbæjar og Kristín Thoroddsen (Sjálfstæðisflokkurinn) fyrir hönd Hafnarfjarðar.

Trúnaðarmaður vagnstjóra lýsir furðu sinni

Trúnaðarmaður vagnstjóra fyrir Sameyki, Pétur Karlsson lýsir undrun sinni á fyrirætlunum Strætó.

„Enn virðist staðan á fyrirtækinu versna. Það vekur athygli að enn er talað um að útvistun leiða sé lausn. Það skín í gegn að þarna á að afhenda verktökum leiðir vegna skorts á vögnum hjá Strætó á Hesthálsi. Fargjaldatekjur hljóta að hafa aukist hjá Strætó því farþegafjöldi hefur aukist á árinu sem leið. Þetta er allt mjög skrítið orðað,“ segir Pétur sem hefur einnig bent á að mikill munur er á kjörum vagnstjóra eftir því hvort unnið sé beint fyrir Strætó eða verktaka.

Fundargerð Strætó 21. janúar sl. má sjá hér.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí