Feminískar fréttir: Við erum öll Efling!

Í femínískum fréttum vikunnar var það helst að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skorar á konur landsins að standa með heingerningafólki í Eflingu, Sema Erla Serdrar stofnandi Solaris sakar ríkislögreglustjóra um að ljúga upp á almenning og Íslandsdeild Amnesty segir í nýlegri skýrslu sinni réttarvörslukerfið hér á landi beita fólk pyntingum.

Við erum öll Efling

„Við erum öll Efling þó að við þráumst við að halda öðru fram” skrifar Steinun Ólína Þorsteinsdóttir í pistli á FB síðu sinni og minnir okkur á að allt í veröldinni sé samofið svo verkfall Eflingar komi okkur öllum við. Hún skorar á almenning og þá sér í lagi konur, Félag kvenna í Atvinnulífinu FAK og Kvenréttindafélag Íslands til að slá skjaldborg um eina lægst launuðu stétt landsins. Ræstingarfólk. Ef við mótmælum ekki framgöngu SA og ríkissáttasemjara í skjóli ríkisstjórnarinnar séum við að kasta áratuga verkalýðsbaráttu og sjálfsögðum réttindum fyrir róða.

Steinunn Ólína segir í pistlinum Eflingu há sína baráttu fyrir allt launafólk í landinu og alla á vinnumarkaði enda séu um að ræða réttinn til samningagerðar, verkfallsréttinn og réttinn til að veita stéttarfélagi umboð til að vinna að bættum kjörum. Hún segist furða sig á því að fátækt launafólk innan Eflingar sem starfar við hreingerningar skuli fá þann mótbyr sem raun ber vitni og skilur ekki hvers vegna fólk og þá sér í lagi konur með sín nú sjálfsögðu réttindi hafi ekki þegar slegið skjaldborg um eina lægst launuðu stétt landsins. Ræstingafólk.

„Þetta kemur okkur öllum alveg stórkostlega mikið við!

Ég vil benda kynsystrum mínum sem kjósa að þegja eða halda að þetta komi þeim ekkert við á, að píkan nýtur nú loksins meiri verndar, skilnings og opinbers stuðnings en sjálft frelsið til að standa vörð um hagsmuni fólks á vinnumarkaði, svo ef gætum við litið af henni blessaðri um stundarkorn og opnað allavega annað augað um aðalatriði!” skrifar Steinunn.

Hún segir formæður okkar ekki hafa farið í frí þó það hafi heitið Kvennafrí árið 1975, þegar konur fylltu strætin. Þær hafi þvert á móti unnið markvisst að markmiðum sínum með það að leiðarljósi að samfélag sé aðeins hægt að kalla samfélag ef láglaunafólk geti framfleytt sér. Eflingarfólk sem boði nú verkfall hjá Íslandshótelum geti það hreinlega ekki þrátt fyrir erfiðisvinnu.

„Ef við látum þetta yfir okkur og aðra ganga erum við drasl. Þá erum við engu betri en það fólk sem græðir með áfergju á því að launapína aðra og þá er okkur sama þótt við þiggjum og framseljum þjónustu af fólki sem á ekki í sig og á. Og hvernig manneskjur erum við þá? Drasl.” skrifar Steinunn.

Þá bætir hún við „Ef við mótmælum ekki aðgerðum Samtaka Atvinnulífsins, Ríkissáttasemjara, í blússandi rúmbu við Ríkisstjórn Ísland þá erum við að segja að okkur sé alveg sama þótt farið sé illa með annað fólk og ekki bara það, við erum að afhjúpa grunnhyggni okkar þegar við köstum áratuga verkalýðsbaráttu og löngu sjálfsögðum réttindum fyrir róða.”
Hún segir það vera að raungerast. Við séum með þögn og aðgerðarleysi núna að selja undan okkur áratugalanga baráttu formæðra okkar til að verja hagsmuni sína á vinnumarkaði.

Steinunn skorar á Félag kvenna í Atvinnulífinu FAK sem hún segir vinna geggjað skapandi og athyglisverð störf að láta í sér heyra fátæku skúringafólki til verndar. „Ykkur munar ekkert um það! Verið nú dálítið stórar stelpur! Þið hafið ekki skúrað heima hjá ykkur svo árum skiptir! Skál!

Kvenréttindafélag Íslands vil ég biðja að leggja til hliðar, örugglega verðug verkefni, eitt andartak og veita Sólveigu Önnu og fólki hennar stuðning í kjaradeilu við atvinnurekendur sína án tafar ellegar hætta að nudda sér utan í nafn langömmu minnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í eitt skipti fyrir öll! Sú gamla vill örugglega frekar hverfa í gleymsku og ryk en vera notuð sem barmnæla og efriskápatrappa í félagi kvenna sem styðja ekki með afgerandi hætti og látum, kjarabaráttu allra kvenna! Svei, bara!” skrifar hún.

Steinunn segir auk þess raddleysingja dagsins í dag, af öllum kynjum minna skuggalega á fínukonurnar 1975 sem vildu ekki undir nokkrum kringumstæðum kalla það verkfall þegar konur tóku frí. Raddleysingjar sem aldrei lyfta litla fingri fyrir fátækt fólk í verkalýðsfélögum og fljóta nú frekar í uppburðarleysi, spéhræðslu og brátt réttlausir að feigðarósi. Hvað eruð þið að hugsa?” Spyr hún.

Að lokum skrifar hún „Hvað er að því að bregðast við harkalegum aðgerðum gegn fólki á vinnumarkaði af hörku? Það er bókstaflega ekkert að óttast og til alls að vinna. Ef við þegjum og klöppum með því valdinu, er hins vegar full ástæða til að óttast, því þá verðum við flest öll réttlausir öreigar og töluvert fyrr en okkur grunar. Því get ég lofað.”


Sema Erla segir ríkislögreglustjóra ljúga upp á almenning


Sema Erla Serdrar stofnandi Solaris hjálparsamtaka segir ríkislögreglustjóra ljúga opinberlega upp á almenning. Umboðsmaður Alþingis hefur birt svar Ríkislögreglustjóra við fyrirspurnum hans vegna brottvísunar Hussein, fatlaðs flóttamanns, í nóvember 2022. Segir í svarinu að fámenn mótmæli hafi sett viðbrögð lögreglu úr af laginu.

Sema segir Ríkislögreglustjóra í svari sínu kenna „mótmælendum“ um ómannúðlega meðferð á Hussein og hversu illa var staðið að brottvísuninni. Allar áætlanir lögreglu varðandi brottvísunina hafi breyst verulega vegna mótmæla sem hófust þegar brottvísunarferlið fór af stað og því hafi ekki tekist betur til.

„Um er að ræða sex manns sem stóðu utan við Hótelið sem fjölskyldan dvaldi á þá um nóttina til að sýna henni stuðning” segir Sema og það sé auðvitað hlægilegt að Ríkislögreglustjóri skuli halda því fram að lögreglan, sem taldi á tímabili örugglega fleiri en 20 lögregluþjóna, hafi ekki getað „tryggt öryggi“ Hussein og fjölskyldu fyrir mótmælendum.“

Sema hvatti þá ríkislögreglustjóra til að draga til baka ummæli sín og biðja almenning afsökunar.


Segir Íslenskt téttarvörslukerfi brjóta mannréttindi

Í nýlegri skýrslu Amnesty International „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“ kemur fram að Ísland beitir óhóflegri einangrunarvist í gæsluvarðhaldi. Með því brjóta stjórnvöld alþjóðalög svo sem Mannréttinda sáttmála Sameinuðu þjóðanna í grein sem varðar pyndingar og aðra grimmilega, ómannúðlega og vanvirðandi meðferð.

Slík refsing hefur alvarlegar afleiðingar fyrir sakborninga og rétt þeirra til að hljóta réttlátra og sanngjarnra réttarhalda. Ekki aðeins er einangrunarvist í gæsluvarðhaldi beitt óhóflega á Íslandi heldur hefur henni verið beitt gegn börnum og einstaklingum með fötlun og geðraskanir. Sakborningar hafa verði látnir sitja í einangrun í gæsluvarðhaldi í allt að tvo mánuði sem eru skýlaus mannréttindabrot.

Amnesty International skorar á Íslensk stjórnvöld að skuldbinda sig til úrbóta hið snarasta enda gegnum við formennsku í Evrópuráðinu sem stendur og er skýrslan því áfellisdómur yfir Íslandi.

Lagt er til að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar á sviði mannréttinda og og setji það sem forgangsmál að banna að börn verði látin sæta einangrun í gæsluvarðhaldi.

Á árunum 2012 til 2021 þurftu tíu börn og unglingar undir átján ára aldri að sitja í einangrun í gæsluvarðhaldi en regluverk skortir til verndar þeim og annarra viðkvæmra hópa svo sem fólk með fötlun eða geðraskanir. Á þessu árabili segir Amnesty einnig að 99 manns hafi þurft að sæta einangrun lengur en 15 daga sem flokkist undir pyntingar og brjóti þar með mannéttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvetja skýrsluhöfundar stjórnvöld til að lögfesta minna þvingandi úrræði en einangrunarvist í gæsluvarðhaldi.

Algengasta röksemdarfærsla stjórnvalda hingað til er að nota einangrun til verndar rannsóknarhagsmunum en Amnesty segir það mannréttindabrot og krefst þess að ríkið virði mannréttindi í hvívetna. Simon Crowther, lögfræðingur hjá alþjóðaskrifstofu samtakanna, segir að íslensk stjórnvöld hafi um árabil verið meðvituð um óhóflega beitingu einangrunarvistar hér á landi og skaðsemi hennar. Þrátt fyrir það hafi þau ítrekað læst börn og einstaklinga með þroskahömlun eina í klefum í rúmlega 22 klukkustundir á sólarhring.

Fjöldi rannsókna benda til þess að einangrunarvist hafi alvarleg, bæði líkamleg og andleg áhrif á heilsu fólks strax frá fyrsta degi. Afleiðingarnar geta verið svefnleysi, ruglingur, ofsjónir og geðrof. Á fyrstu tveimur vikunum á eftir má greina sjálfsvígshættu og hætta á sjálfsskaða eykst einnig.

Amnesty International segir mikilvægt að horft sé gagnrýnum augum á stöðu mannréttindamála hér á landi enda séu niðurstöður skýrslunnar sláandi. Íslensk stjórnvöld séu ekki undanskilin skoðun og gagnrýni þegar kemur að mannréttindum og réttindum fólks í viðkvæmri stöðu.

Þá er skýrslunni ætlað að vera innlegg í þær breytingar sem dómsmálaráðuneytið segir vera yfirstandandi á íslenskri refsilöggjöf. Samtökin beina umbóta sínum þó einnig að fangelsismálayfirvöldum, dómurum, lögreglu og lögmönnum hér á landi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí