Lögreglan óttast „hörð mótmæli“ og vill myndavélar

Á fundi Borgarráðs í dag var lagt til að samningar um verklag við kaup á öryggismyndavélum yrðu endurnýjaðir. Aðstoðarlögreglustjóri sendi bréf inn undir liðnum þar sem hann talaði fyrir fjölgun myndavéla í miðborginni. Nauðsynlegt væri að fjölga þeim til að „auka öryggisvitund“ fólks og fylgjast með „hörðum mótmælum.“

Lögregluyfirvöld virðast óttast mótmæli á Íslandi. Í bréfinu kemur fram að nauðsynlegt sé að „þétta net“ öryggismyndavéla í miðborginni, og þá sérstaklega vegna heimsókna þjóðarleiðtoga. Mótmæli vegna þess geti verið hættuleg og þá sé mjög mikilvægt að auka „öryggisvitund fólks“ þá daga.

Fá ef einhver dæmi eru um að mótmæli á Íslandi hafi reynst hættuleg. Mótmælin eftir efnahagshrunið 2008 voru með þeim friðsamari í allri Evrópu á þeim tíma. Til samanburðar er ekki óalgengt að Molotov sprengjum sé kastað í miklu magni á mótmælum annars staðar í álfunni. Slíkt hefur aldrei gerst á Íslandi né nein skemmdarverk unnin sem valdið geta hættu hjá almennum borgurum.

Miðað við ofangreindar staðreyndir er mögulegt að þetta tengist þeirri þróun sem sést æ víðar a Vesturlöndum. Þar hefur á undanförnum árum verið gengið sífellt lengra gegn almennum rétti borgara til mótmæla.

Á síðustu mánuðum hefur breska þingið reynt að koma frumvarpi í gegn sem myndi banna „hávær“ mótmæli og auka valdheimildir lögreglu. Lávarðadeild þingsins tókst að stöðva margt í frumvarpinu en þó er líklegt að það nái í gegn.

Í bókun borgarfulltrúa Sósíalista vegna málsins kom eftirfarandi fram: Sósíalistar geta ekki samþykkt vöktun á almenningi sem nýtir stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla. Það er óhugsandi að samþykkja aukið myndavélaeftirlit í þessum tilgangi.

Bréf lögreglustjóra má lesa með því að smella hér. Það má sjá á bls. 4 í skjalinu.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí