Seðlabankinn er búinn að sýna sitt rétta andlit: „Hann er ekki að vinna fyrir almenning“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokk fólksins, segir í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að Seðlabankinn, með Ásgeir Jónsson í broddi fylkingar, hafi sýnt sitt rétta andlit. Ásthildur segir þá sem stýra bankanum „vaxtafíkla“ sem starfi ekki fyrir almenning. Peningastefnunefnd bankans hækkaði stýrivexti um 1 prósent í gær, upp í 7,5 prósent.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Ásthildar Lóu í heild sinni. 

Það er óhætt að segja að Seðlabankinn sé búinn að sýna sitt rétta andlit og opinbera það fyrir hverja hann vinnur. Hann er ekki að vinna fyrir almenning heldur þá sem eiga pening og vita jafnvel ekki aura sinna tal.

Markmið hans er að raunvextir innlána verði jákvæðir. Nú er það staðreynd að raunvextir á skammtímainnlánum bankanna hafa nær alltaf verið neikvæðir og algjörlega vitskert hugmynd að ætla að breyta því núna í 10% verðbólgu.

Það verður að líta til þess að þeim sem eiga fjármagn, standa ýmsar leiðir til boða til að ávöxtunar, á meðan fæstir búa svo vel að eiga fleira en eitt heimili.

Heimili okkar eiga að vera friðhelg. Það á aldrei að ganga að þeim og svipta fólk þannig fótfestu og öryggi.

Einnig má spyrja af hverju alltaf megi rýra eigið fé sem bundið er í fasteign en ekki fé sem liggur inni á bankareikningi?

Verðbólga er slæm, um það er ekki deilt, en með aðgerðum sínum er Seðlabankinn að búa til langvarandi kreppu sem mun hafa djúpstæð áhrif löngu eftir að þessi verðbólga hefur runnið sitt skeið.

Samkvæmt Christine Lagarde, Seðlabankastjóra Evrópu, mun verðbólgan lækka, hvort sem Seðlabankar hækki vexti eður ei. Maður skyldi ætla að hún hefði eitthvað vit á þessum málum og því er verðugt að spyrja sig hvers vegna peningastefnunefnd Seðlabankans heldur áfram að berja höfðinu við steininn eins og raun ber vitni.

Þegar peningastefnunefnd er skoðuð kemur í ljós að hún er ákaflega einsleit. Allir nefndarmenn hafa sterk tengsl við fjármálageirann og í henni er engin fulltrúi neytenda. Einnig má færa fyrir því rök að fólk sem er með í kringum 2 milljónir í laun á mánuði, sé ekki hæft til að dæma almenning í ánauð bankanna og til húsnæðisleysis. Þau eru öll á grænni grein og geta því talað fjálglega um „ásættanlegan fórnarkostnað“ eða að „auðvitað sé ekki hægt að bjarga öllum“.

Stóra málið er hins vegar að ef þau væru ekki raunvaxtafíklar að missa sig í rétttrúnaðinum, þá þyrfti ekki að bjarga neinum. Það er ekki hægt að ýta fólki fyrir björg og láta svo eins og einhver annar hafi brugðist þeim.

Á meðan á öllu þessu stendur situr ríkisstjórnin á hliðarlínunum og borar í nefið. Hún er bara ekki alveg að nenna þessu, og endurtekur eins og óþekkur krakki, þvert gegn betri vitund að „skuldastaða heimilanna hafi aldrei verið betri“.

Ég hef megnustu skömm á þessu og lýsi fullri ábyrgð á hendur þessu fólki.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí