Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segist síður en svo sáttur með framkomu breskra yfirvalda gagnvart Julian Assange. Hann greinir frá því á Facebook að yfirmönnum hjá samtökunum Blaðamenn án landamæra hafi verið vísað frá þegar þeir hugðust heimsækja Assange í Belmarsh fangelsið. Kristinn segir að öllum ætti að vera ljóst að Assange sé pólitískur fangi.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristins í heild sinni.
Nú sýður á mér. Yfirmenn í samtökunum Blaðamenn án landamæra (RSF) áttu bókaða heimsókn í Belmarsh fangelsið í morgun til að heimsækja Julian Assange. Þegar þau Rebecca Vincent og Christophe Deloire mættu á réttum tima í morgun var þeim tjáð að þau hefðu verið tekin af gestalista samkvæmt ákvörðun fangelsisstjórans. Ástæðan: honum hefði borist uppýsingar um að þau tvö væru blaðamenn.
Ég nenni varla að endursegja hið augljósa: Julian Assange er pólitískur fangi. Ef þessi uppákoma í morgun væri í öðru ríki en Bretlandi, segjum Rússlandi eða Kína, væru allir sótillir af reiði.
Ég er það. Eftir viku hefur Julian setið saklaus maður í fjögur ár í þessari andskotans dýflisu. Fyrir þær sakir að opinbera sannleikann, sem blaðamenn eiga að gera.