Ríkisstjórnin hefur undirbúið komu kjarnorkuknúinna orrustukafbáta í ár

Ríkisstjórn Íslands hefur undirbúið eftirlitskomur kjarnorkuknúinna orrustukafbáta bandaríska sjóhersins hingað til lands í um ár en stutt er í að fyrsti báturinn leggi að við Reykjanes eða Helguvík. Utanríkisráðherra tilkynnti stjórnvöldum í Bandaríkjunum að kjarnorkuknúnum kafbátum þeirra sé nú heimilt að hafa viðdvöl við Íslandsstrendur, skipta út áhöfn hér og endurnýja kost sinn. Landganga verður ekki heimil.

Þetta er staðan þrátt fyrir að landhelgi landsins sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir kafbátana sinna kafbátaeftirliti meðal NATO-ríkja og að þeir stuðli að öryggi og betri stöðuvitund með neðansjávarinnviðum svo sem með sæstrengjum á hafsvæðinu við strendur Íslands. Komurnar munu miðast við þörfina á hverjum tíma hvernig svo sem hún verður skilgreind.

Í tilkynningu yfirvalda til Bandaríkjahers kemur fram að lögð sé áhersla á að landhelgin sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og að útbúnar hafi verið verklagsreglur fyrir bátana. Ríkisstjórnin hefur þegar fundað um málið og hefur utanríkismálanefnd og þjóðaröryggisráði verið gert viðvart.

Geislavarnir ríkisins líta ekki svo á að um áhyggjuefni sé að ræða og að öryggisferlar bátanna séu í góðu lagi og þeir hafi verið notaðir slysalaust í næstum sjötíu ár í Bandaríkjunum og Evrópu. Sigurður M. Magnússon forstjóri Geislavarna ríkisins segir hönnun kjarnaofnanna og öryggisbúnað vera fullkominn og það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af nærveru þeirra.

„Við verðum líka að hafa það í huga að það er áhöfn í kjarnorkukafbátunum sem er í næsta nágrenni við kjarnaofnana í bátnum. Geislaálagið á áhafnirnar er mjög lágt. Þannig að ef við lítum yfir söguna og þá reynslu sem hefur fengist af notkun kjarnorkuknúinna kafbáta í sjóherjum Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands, þá er hún góð.“ segir Sigurður í viðtali við fréttastofu RÚV. Þá segir hann bátana hafa komið við í norskri lögsögu um tuttugu ára skeið.

„Við vitum að það eru kjarnorkuknúnir kafbátar utan lögsögu Íslands og nú er komin heimild til þess að kjarnorkuknúnir kafbátar fái að koma inn í landhelgina og hafa stutta viðdvöl, það er að segja í einhverjar klukkustundir. Það sem við höfum gert í undirbúningnum er að horfa til þess hvað aðrar þjóðir gera.“ segir Þórdís Kolbrún. Kolbrún segir þessa aðgerð koma til af því að við séum einfaldlega á þeim tímum að þetta sé mikilvægt og vandað hafi verið til undirbúningsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí