Græðgi fyrirtækja frekar að valda verðbólgunni en launhækkanir

Ásgeir Jónsson

Marínó G. Njálsson, fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir það ekki standast skoðun að kjarasamningar séu aðalorsök verðbólgunnar. Hann fer yfir málið í pistli sem hann birtir á Facebook en þar segir hann kjarasamninga hafa haft óveruleg áhrif á hækkun vísitölu neysluverðs. Marínó segir forkálfa Seðlabankans, líkt og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, vera að efna til illinda með því að að kenna láglaunafólki um verðbólguna. Methagnaður fyrirtækja gefi vísbendingu um hinn sanna sökudólg.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Marínó í heild sinni.

Seðlabankastjóri (eða er það nafni hans í peningastefnunefnd) og aðalhagfræðingur bankans kenna kjarasamningum í desember um verðbólguna, en nefna ekki önnur atriði í rekstrarumhverfi fyrirtækja.  Mig langar að skoða þetta nánar.

1. Kjarasamningar:  SGS, VR og síðan Efling gerðu kjarasamninga við SA á tímabilinu frá lokum nóvember 2022 til mars 2023.  Allir voru samningarnir með ákvæðum um afturvirkni frá 1. nóvember 2022.  Undir þessa samninga falla m.a. lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði en einnig einhverjir sem ná að klífa eitthvað ofar í launastiganum.  Launahækkanir voru í mesta lagi eitthvað um 15% en flestir fengu mun minna og líklegast var meðalhækkun í kringum 10%.  Spurningin er hve mikil áhrif 10% launahækkun hefur á verð vöru og þjónustu.

Ég er með tölur frá 2021 úr ársreikningum 34.703 fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu (að undanskyldum, sorphirðu, fjármála- og vátryggingastarfsemi), sem Hagstofa tekur saman úr gögnum skilað til Skattsins.  Samkvæmt þeim var launakostnaður árið 2021 rétt undir 20% af heildartekjum þessara fyrirtækja.  Til að mæta 10% launahækkun þyrftu því fyrirtækin að jafnaði að hækka tekjur hjá sér um 2% til að dekka kostnaðaraukninguna sem hlýst af launahækkkuninni.

Frá því að kjarasamningar voru gerðir hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,9%, þ.e. hátt í 2,5-falt það sem launakostnaður fyrirtækjanna í viðskiptahagkerfinu hefur líklega hækkað.  Það er þrátt fyrir að launahækkanirnar hafi bara náð til hluta launþega í viðskiptahagkerfinu.

Næst er að velta fyrir sér, hvaða greinar leggja mest til hækkunar vísitölu neysluverðs og hvert hlutfall launakostnaðar er hjá þeim.  Í apríl var vægi matar og drykkjarvöru 14,9%, áfengi og tóbak vógu 2,4%, föt og skór 4,0%, húsnæði, hiti og rafmagn 28,4%, húsgögn og heimilisbúnaður 6,4%, heilsa 3,7%, ferðir og flutningar 15,2% (þar af kaup og rekstur ökutækja 12,6%), póstur og sími 1,7%, tómstundir og menning 9,9%, menntun 1,0%, hótel og veitingastaðir 5,2% og aðrar vörur og þjónusta 7,2%.  Af þessum liðum skipta í reynd bara þrír þeirra máli í þessum vangaveltum, þ.e. matur og drykkjarvörur, húsnæði, hiti og rafmagn og ferðir og flutningar, en þeir leggja til 3,4% af þessum 4,9% sem vísitala neysluverðs hefur hækkað frá undirritun kjarasamninga.

Í ljós kemur að flokkurinn matur og drykkjarvörur hefur hækkað um 7,0% frá því kjarasamningar voru undirritaðir (áhrif á verðbólgu 1,0%).  Hlutfall launakostnaðar hjá þeim verslunum sem selja mat og drykkjavörur var 13,7% árið 2021.  Það þýðir að kostnaðarauki þessara fyrirtækja vegna kjarasamninganna var líklega undir 1,5%.  Það sem upp á vantar í 7,0% verðhækkun er því vegna annarra þátta en kjarasamninganna.  Húsnæði, hiti og rafmagn hefur hækkað um 4,3% (áhrif á vísitölu 1,3%) og kemur kjarasamningum líklega ekkert við.  Svo eru það Ferðir og flutningar sem hafa hækkað um 7,4% með 1,1% áhrif á vísitöluna.  Þetta er annars vegar vegna hækkunar á bílum (0,5%) og flugfargjöldum (0,6%).  Hvorugt þessara atriða hefur nokkuð með kjarasamningana að gera.  Eftir standa atriði sem vega 1,5% af hækkun vísitölunnar og falla þau flest undir atvinnugreinaflokkinn Smásöluverslun, þar sem hlutfall launakostnaðar af heildartekjum var 13,7% árið 2021.

Af þessu má ráða, að kjarasamningar hafi haft óveruleg áhrif á hækkun vísitölu neysluverðs og skýringanna verði að leita annað.  Þetta er þó með þeim fyrirvara að launakostnaður innlendrar aðfangakeðju ýtir vissulega undir hækkunar vöruverðs.  Ekki er þó nokkur ástæða til að ætla að sá launakostnaður vegi eitthvað þyngra á innkaupsverð, en launakostnaður starfsmanna smásalans hefur á smásöluverðið.

2. Fjármagnskostnaður fyrirtækja.  Heildarskuldir fyrirtækjanna í viðskiptahagkerfinu, sem ég vísa til að ofan, voru 5.400 ma.kr. í árslok 2021.  Ég hef ekki tölur um stöðuna í lok árs 2022, hvað þá í rauntíma.  Hækkun vaxta á 5.400 ma.kr. um 1% gerir 54 ma.kr. á ári.  Frá árslokum 2021 til dagsins í dag hefur Seðlabankinn hækkað vexti sína úr 2,0% í 8,75%.  Hafi vextir af lánum fyrirtækjanna hækkað í takt við þetta, þá leiðir það af sér 365 ma.kr. hækkun fjármagnskostnaðar miðað við skuldastöðu í árslok 2021.

Við eigum að trúa því, vegna þess að það hentar forkólfum Seðlabankans, að mögulega yfir 350 ma.kr. hækkun á fjármagnskostnaði fyrirtækja vegna vaxtahækkana Seðlabankans hafi engin áhrif á vöruverð til hækkunar, en ríflega 100 ma.kr. hækkun launakostnaðar sé að setja allt á hliðina.  Áhugavert væri að sjá rök bankans fyrir þessu.

3. Hagnaður fyrirtækja.  Mörg fyrirtæki eru búin að birta niðurstöður ársuppgjöra, en ég hef ekki lagt það á mig að safna þeim upplýsingum saman.  Hitt er, að nokkrar greinar hafa birst í fjölmiðlum þar sem því er haldið fram að afkoma fyrirtækja hafi almennt verið betri árið 2022 en hún var árið 2021.  Í fyrrgreindum tölum Hagstofu úr ársreikningum fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu er hægt að sjá, að hagnaður þeirra árið 2021 var 674 ma.kr. og hafði aldrei verið meiri frá því að Hagstofa tók að safna þessum upplýsingum.  Árið 2020 var hagnaðurinn 102 ma.kr. og hagnaðurinn hefur því ríflega 6,5-faldast á milli ára.  Þessi hagnaður árið 2021 var meiri en samanlagður hagnaður áranna 2018-2020.  Hann var á bilinu 260-300 ma.kr. meiri en hagnaður áranna 2015-2017 hvert fyrir sig og álíka mikill og samanlagður hagnaður áranna 2012-2014.  Vissulega er endurspeglar þetta ekki hagnað smásöluverslana.

Ég ætla ekki að hafna því, að kjarasamningar hafi haft einhver áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar, en þeir séu aðalorsök verðbólgunnar, stenst einfaldlega ekki skoðun.  Áhrif vaxtahækkana á afkomu fyrirtækja eru t.d. talsvert meiri og aukning hagnaðar fyrirtækjanna sýnir að þau eru orðin full gráðug.

Í mínum huga er ljóst, að forkólfar Seðlabankans eru að efna til illinda við rangan aðila með því að kenna láglaunafólki og öðrum  neytendum um verðbólguna.  Hefði Seðlabankinn sýnt þolinmæði og fyrirtæki haldið aftur af arðsemiskröfu sinni, þá væri verðbólgan líklega í kring um 5%.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí