Nú hefur komið í ljós að Íslandsbanki fór ekki að lögum við söluna á 22,5 prósenta hlut í bankanum í mars 2022. Fjármálaeftirlit Seðlabankans segir að bankinn hafi villt um fyrir Bankasýslunni og einnig að brotin hafi verið alvarleg og kerfislæg, ekki tilfallandi. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þegar lýst yfir ábyrgð í málinu, að vísu var það meðan allt lék í lyndi.
Fyrir ekki nema sjö mánuðum sagði Bjarni að salan hefði gengið vel og lýsti yfir ábyrgð á því. Þá var Bjarni í Kastljósi til að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem dró ekki nærri því eins svarta mynd upp og fjármálaeftirlitið. Þrátt fyrir það lýsti Bjarni yfir að sín pólitíska ábyrgð á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka fælist í því að standa vel að sölu ríkiseigna. Hann sagði einnig að hann bæri lagalega ábyrgð á framkvæmd bankasölunnar. Þá sagði Bjarni og vísaði í fyrrnefnda skýrslu Ríkisendurskoðunar:
„Ég held að það séu ábendingar í skýrslunni um hluti sem hefðu mátt betur fara. En því er hvergi haldið fram í skýrslunni, ólíkt því sem margir hafa haldið fram í dag, að við höfum ekki verið að gera þetta eins og lög boðuðu. Mín ábyrgð, hún er kannski mest í þessu hér: Að láta bankann í söluferli. Þetta er risastór pólitísk ákvörðun.“
Um svipað leyti og Bjarni lét þessi orð falla í Kastljósi var haldin landsfundur Sjálfstæðisflokksins. Þar hrósaði Bjarni sjálfum sér í hástert fyrir bankasöluna. Hann sagði söluna snúast um frelsi. „Það var frelsismál að hefjast handa við bankasöluna og draga þannig úr ríkisumsvifum. Ég verð ávallt reiðubúin að taka harðan slag, ef á þarf að halda og veit að þið ætlist til þess af mér,“ sagði Bjarni í ræðu sinni og að sögn Kjarnans var klappað og klappað.
Bjarni sagði í ræðu sinni á landsfundi að með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka myndu „gríðarlegir fjármunir leysast úr læðingur“. Hann hélt því fram að salan snerist „ ekki aðeins um að frelsa fjármagnið, heldur ekki síður um að frelsa íslenskan almenning undan ábyrgðinni á bönkunum. Þeir eru stöndugir í dag, en við hljótum að átta okkur á því að það getur breyst. Það er betra að aðrir axli þá áhættu en almenningur.“
Svo má nefna enn eitt dæmi um ummæli Bjarna frá þessum tíma sem eldast afskaplega illa. Það var í sérstakri umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar á Alþingi þann 15. nóvember síðastliðinn. Þá sagði Bjarni að stjórnarandstöðuþingmenn væru að reyna að þyrla upp moldviðri með umræðu um bankasöluna. Bjarni vildi meina að þeir þingmenn væru svekktir fyrir því að ekkert hafa fundist í skýrslunni um lögbrot við framkvæmdina. Bjarni virðist þó mögulega hafa áttað sig á því að skýrsla Fjármálaeftirlitsins yrði svört, því í ræðu á Alþingi þennan dag sagði Bjarni:
„Það sama vil ég segja varðandi söluráðgjafa sem eru til skoðunar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Fullum fetum mun ég ávallt segja: Ef í ljós koma brot af einhverju tagi í þeirri úttekt, eða almennt í úttektum eftirlitsaðila, þá er ekkert annað eðlilegt en að það hafi viðeigandi afleiðingar fyrir viðkomandi. En eðli málsins samkvæmt getur sá sem setur söluferlið af stað ekki tekið á sig ábyrgð á sérhverju slíku broti sem kann að vera til staðar í ferlinu, ekki frekar en samgönguráðherra væri gerður ábyrgur fyrir því að einhver færi yfir á rauðu ljósi. Drjúgur hluti ábendinga, reyndar bróðurpartur þeirra ábendinga sem fram komu í skýrslunni, snúa ekki að ráðuneytinu heldur framkvæmd sölunnar. Hún er lögum samkvæmt falin öðrum. Allt var það gert í upphafi til að koma í veg fyrir pólitísk afskipti af sölu ríkiseigna og koma sölunni í armslengd frá stjórnkerfinu. Þetta var ákveðið fyrir tíu árum síðan. Það hefur afleiðingar á ábyrgðarskiptin þegar menn ákveða að gera slíkt, annað væri ekki eðlilegt. Vald og ábyrgð eiga að fara saman í þessu eins og annars staðar.“