„Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn vilja lifa en ekki deyja þarf að losa sig við VG“

„Ég segi því að við skulum slíta stjórnarsamstarfinu við VG, sem eru ekki lengur stjórntækir – líkt og mig alltaf grunaði – og standa ekki við ríkisstjórnarsáttmálann og taka inn í ríkisstjórnina Flokk fólksins og hugsanlega Miðflokkinn. Þetta hefur verið verklítil ríkisstjórn á liðnum 6 árum og nú er tími til kominn að láta hendur rækilega standa fram úr ermum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn vilja lifa en ekki deyja þarf að losa sig við VG, sem er meinið.“

Þetta segir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörð og óperusöngvara, í pistli sem hann birtir á Facebook. Guðbjörn hefur yfir árin gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þrátt fyrir að sá flokkur beri besta ábyrgð á núverandi ástandi í útlendingamálum þá telur Guðbjörn að meint flóttamannavandamál sé VG að kenna. Guðbjörn kallar eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fleygi VG út úr ríkisstjórn, en komist hjá því að kjósa enda fylgi flokkanna sjaldan verið minna.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Guðbjörns í heild sinni.

Ég hef sofið á þessari hugmynd minni um nýja ríkisstjórn í landinu. Eftir 7-8 klukkustunda svefn er ég enn sannfærðari um að þetta sé nákvæmlega rétta lausnin, með eða án þátttöku Miðflokksins, sem gæti því miður staðið í Framsóknarflokknum. Við þurfum að horfast í augu við pólitískan raunveruleika eins og hann er núna, ekki berja hausnum við steininn. Við höfum horfst í augu við kyrrstöðu eða jafnvel afturför í næstum 6 ár.

Við verðum að horfast í augu við „flóttamannavandamálið“ hér á landi. Við þurfum að horfast í augu við þá efnahagslegu spennu sem allt of margir ferðamenn eru að skapa í húsnæðismálum og varðandi innviðina. Við þurfum orkuskipti og virkjanir en einnig fjölda ódýrra leiguíbúða fyrir innflytjendur og aðra þá sem minna mega sín. Nú þarf að framkvæma en ekki sýna glærur.

Við getum hvorki látið tugþúsundir efnahagslega flóttamenn skemma lífskjör okkar allra – fátækra Íslendinga og útlendinga eða millistéttarinnar – eða eyðileggja velferðarkerfið, skerða kjör öryrkja og aldraðra né látið útlendinga eyðileggja tæki ungs fólks hér á landi hvað varðar húsnæði. Við þurfum ekki aukningu glæpa eða aukinn samfélagslegan óróa.

Blessuð börnin okkar mega ekki verða að minnihluta í bekkjum í barnaskóla eins og víða er orðið í útlöndum, þar sem flóttamannabörn eru orðin 60-70% í öllum bekkjadeildum með ærnum tilkostnaði og erfiðleikum. Það er ekkert að því að taka við útlendingum en samfélagið verður að ráða við það verkefni. Séu börn útlendinga ekki „integreruð“ blasa vandamálin við.

Það kostar mikla peninga að „integrera“ 5-6 þúsund útlendinga á ári og koma þeim í húsnæði, mennta börnin og skaffa þeim vinnu. Þeir peningar eru ekki til. Íslendingum þarf alls ekki að fjölga eins og Píratar o.fl. flokkar tala um. Við þurfum fyrst og fremsta að búa betur að útlendingum og Íslendingum sem nú þegar búa hér. Og við þurfum að hafa efni á því.

Nei, það sem við þurfum er að Íslendingum fjölgi einmitt hægt og rólega bæði með hækkandi aldri, fjölgun fæðinga og hæfilegu innstreymi útlendinga. Það er þannig ekki hlutverk íslenskra skattgreiðenda að niðurgreiða húsnæði starfsmamanna ferðaþjónustunnar eða skaffa þeim ódýra opinbera þjónustu. Við þurfum að frekar að styrkja þá atvinnuvegi sem skaffa hálaunastörf. Aðeins með þessu móti bætum við lífskjör hér á landi.

Við eigum sannarlega að vera opið þjóðfélag, þegar kemur að innflutningi á fólki, sem er vel menntað eða sem nýtist okkur að öðru leyti t.a.m. vísindamönnum, listafólki heilbrigðisstarfsfólki, forriturum eða iðnaðarmönnum. En að galopna landamærin eins og nú hugnast mér ekki. Í nágrannalöndunum sjáum við hvert stefnir í þessum efnum, nefnilega í óefni.

Ég segi því að við skulum slíta stjórnarsamstarfinu við VG, sem eru ekki lengur stjórntækir – líkt og mig alltaf grunaði – og standa ekki við ríkisstjórnarsáttmálann og taka inn í ríkisstjórnina Flokk fólksins og hugsanlega Miðflokkinn. Þetta hefur verið verklítil ríkisstjórn á liðnum 6 árum og nú er tími til kominn að láta hendur rækilega standa fram úr ermum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn vilja lifa en ekki deyja þarf að losa sig við VG, sem er meinið.

Það er bullandi hagvöxtur og tækifærin blasa við en til þess að við getum gripið þau þarf hér nýja ríkisstjórn með aðrar áherslur. Við þurfum hins vegar ekki nýja og enn harðari vinstri stjórn sem ekki er samhent eða sammála um neina hluti. Ég vil því vera „hipp & kúl“ og endurnýja gamlan frasa Framsóknar: „Árangur áfram ekkert stopp“. Út með kommana og inn með mannvinina í Flokki fólksins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí