Flokkur Varoufakis fellur af þingi

Nýtt lýðræði, flokkur Kyriakos Mitsotakis fráfarandi forsætisráðherra, náði hreinum meirihluta á þingi í kosningunum í Grikklandi í dag, þótt flokkurinn hafi aðeins fengið 40,5% atkvæða. Ástæðan eru sérstök kosningalög þar sem sá flokkur sem fær mest fylgi getur fengið allt að 50 þingsæti aukalega. Það má því reikna með óbreyttri stjórn í Grikklandi næstu árin.
Þetta fyrirkomulag var við lýði í Grikklandi frá því að lýðræði var endurvakið eftir herforingjastjórnina um miðjan áttunda áratug síðustu aldar, allt þar til að ríkisstjórn vinstribandalagsins Syriza afnam það fyrir fáeinum árum. Nýtt lýðræði endurvakti þennan bónus til stærsta flokksins hins vegar með smávægilegum breytingum. En sú breyting hafði ekki ná í gegn þegar kosið var í maí og því var kosið aftur. Og nú fékk Nýtt lýðræði hreinan meirihluta út á svo til sama fylgi og í maí, 158 þingmenn af 300 þingmönnum á þingi. Eldra kosningakerfi færði flokknum 146 þingmenn í maí.

Þegar 95% atkvæða höfðu verið talin leit út fyrir að þingheimur yrði svona (innan sviga er breyting frá kosningunum 2019, þar sem breytingin er lítil frá kosningunum í maí)

Talið frá vinstri, í orðsins fyllstu merkingu:

FlokkurÞingmennBreyting frá 2019
Kommúnistar20+5
MeRA25 (flokkur Varoufakis)0-9
Sigling til frelsis8+8
Syriza47-39
PASOK32+10
Nýtt lýðræði1580
Grísk lausn12+2
Sigur – Niki10+10
Spartverjar13+13

Þarna sjáum að Nýtt lýðræði heldur þingmannameirihluta sínum. Þetta er hefðbundinn evrópskur íhaldsflokkur, starfar í Evrópusambandinu með Kristlegum demókrötum í Þýskalandi, Íhaldsflokknum í Danmörku og Moderatarna í Svíþjóð til að gefa hugmynd um stöðu flokksins.

Þetta er miðjan í Grikklandi. Hægra megin við nýtt lýðræði er Grísk lausn sem evrópuskeptískur flokkur sem vill skerða rétt flóttafólks, er í klúbbi með Bræðralagi Ítalíu (flokki Giorgia Meloni forsætisráðherra) Svíþjóðardemókrötum, Vox á Spáni og Lög og rétti í Póllandi. Þetta er klúbburinn sem Sjálfstæðisflokkurinn valdi sér eftir Hrun en hefur nú yfirgefið.

Og þar sem Niki og Spartverjar eru enn utar til hægri en Grísk lausn getið þið ímyndað ykkur fyrir hvað þeir standa. Þeir eru alfarið á móti Evrópusambandinu, vilja stöðva flóttafólk áður en það nær landi, banna þungunarrof og svo framvegis, tala um endurreisn hellensk samfélags sem mótvægi við fjölþjóðlega menningu nútímans. Minna um margt á Miðflokkinn.

Vinstra megin við Nýtt lýðræði er PASOK, systurflokkur Samfylkingarinnar, og Syriza, systurflokkur Vg. Syriza varð til sem flokkabandalag margra flokka eftir Hrun og náði völdum, en hefur síðan skroppið saman. Og er stóri taparinn í kosningunum.

Og Syriza tapar ekki aðeins til PASOK og nýs evrópuskeptísks flokks vinstra megin við sig heldur flæða atkvæði hans yfir á ysta hægri vænginn.

Vinstra megin við Syriza er svo til nýr flokkur fyrrum félaga í Syriza, Zoe Konstantopoulou, Frelsissiglingin. Þetta er þriðja tilraun flokksins til að ná inn á þing og nú tókst það. Frelsissiglingin vill út úr Evrópusambandinu og myndi líklega flokkast sem vinstri popúlískur flokkur, er á móti nýfrjálshyggju stjórnvalda, sveltistefnunni en gagnrýnir líka kerfið, bruðl og spillingu . Frelsissiglingin hreppir 8 þingmenn, næstum það sama og MeRA25-flokkur Yannis Varoufakis tapar, en Varoufakis er líka fyrrum félagi í Syriza eins og Zoe. Flokk Varoufakis mætti kalla Evrópsku raunsæis og óhlýðnisfylkinguna. Markmið hans er ekki að ganga úr Evrópusambandinu heldur að endurskapa það svo það þjóni almenningi en ekki fjármagns- og fyrirtækjaeigendum.

MeRA25 fellur af þingi þar sem flokkurinn nær ekki 3% þröskuldinum sem flokkar þurfa að ná til að fá þingmenn úthlutaða, fékk aðeins 2,4%. Íslenski þröskuldurinn er enn hærri en þetta, Sósíalistaflokkurinn fékk ekki úthlutað þingsætum 2021 þrátt fyrir 4,1% atkvæða. Það hefði dugað til 8 af 300 þingmönnum á gríska þinginu.

Varoufakis sagði eftir niðurstöðuna að það væri auðvitað slæmt að MeRA25 félli af þingi. Þó væri enn verra að vinstrinu hefði mistekist að fella sveltistefnu Nýs lýðræðis. Í stað þess að fylkja almenningi um róttæka viðreisnarstefnu hefði óánægja almennings með stjórnarstefnuna styrkt ysta hægrið í Grikklandi.

Vinstra megin við flokk Varoufakis er svo Kommúnistaflokkur Grikklands, sem er Marx-Lenínískur flokkur andsnúinn ESB, Nató og öllu því alþjóðlega kerfi sem þjónar heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.

Það er því stórt litróf í grískri pólitík, víðara en hér. En eftir sem áður mun landinu verða stjórnað af venjulegum íhaldsflokki næstu árin og lítilla breytinga að vænta í stjórnarstefnunni. Sem mun áfram leiða miklar breytingar yfir Grikkland, veikingu velferðar og minnkandi völd almennings.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí