Hagstofan spáir hagvexti áfram og hægt minnkandi verðbólgu

Hagstofan reiknar með að hagvöxtur verði um 4% á þessu ári og verðbólgan um 8,7%. Ef miðað er við sömu fólksfjölgun og í fyrra, 3,1%, þyrfti launafólk að fá 9,7% launahækkanir til að halda sínum hlut af þjóðarkökunni. Ofan á 11,8% launahækkun í fyrra til að vera sneiðina þá, eða samanlagt 22,6% hækkun á árunum 2022-23. Ef hækkunin er minni minnkar sneið launafólks en sneið fjármagns- og fyrirtækjaeigenda stækkar sem því nemur.

Hagstofan spáir að verðbólga muni lækka hægt, verði um 4,9% á næsta ári. Þá dregur líka úr hagvexti, en Hagstofan spáir 2,5% hagvexti 2024.

Þjóðhagsspá á sumri frá Hagstofu

Reiknað er með að hagvöxtur verði 4% í ár og 2,5% árið 2024. Hagvöxtur síðasta árs var borinn uppi af innlendri eftirspurn en í ár er gert ráð fyrir auknu vægi utanríkisviðskipta. Á fyrsta ársfjórðungi jókst verg landsframleiðsla um 7% frá fyrra ári en gert er ráð fyrir að það hægi á aukningunni þegar líður á árið.

Kjarasamningsbundnar launahækkanir og mikil fólksfjölgun studdu við einkaneyslu í byrjun árs. Búist er við hægari vexti einkaneyslu á komandi fjórðungum. Áætlað er að einkaneysla vaxi um 2,3% í ár og 2,2% árið 2024. Gert er ráð fyrir að samneysla aukist um 2% í ár og 1,7% á næsta ári.

Atvinnuvegafjárfesting hefur aukist hratt síðustu tvö ár en útlit er fyrir hóflegri aukningu næstu ár og er reiknað með að hún aukist um 3,5% í ár og 3,7% árið 2024. Gert er ráð fyrir að íbúðafjárfesting aukist um 5,2% í ár og 3,2% á næsta ári. Reiknað er með að fjárfesting hins opinbera dragist saman um 5,3% í ár en aukist um 2,1% árið 2024.

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar reyndist jákvætt á fyrsta ársfjórðungi. Útflutningur hefur aukist einkum vegna meiri umsvifa í ferðaþjónustu líkt og undanfarin tvö ár. Reiknað er með að útflutningur vaxi um 8,3% á árinu og um 3,3% á næsta ári.

Kröftug hækkun var á vísitölu neysluverðs fyrstu mánuði ársins en útlit er fyrir að hún hjaðni hægt innan ársins. Í ár er gert ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 8,7%. Reiknað er með að það dragi úr hækkunum á næsta ári, m.a. vegna minni verðbólgu í viðskiptalöndum og hægari umsvifum í hagkerfinu, en spáð er 4,9% verðbólgu á árinu að meðaltali.

Atvinnuleysi hefur að meðaltali verið 3,9% á fyrstu fimm mánuðum ársins samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Áætlað er að atvinnuleysi verði að meðaltali 3,7% á árinu og aukist á næsta ári í 4%. Gert er ráð fyrir að raunlaun hækki með minnkandi verðbólgu. Kjarasamningar renna út í byrjun næsta árs og töluverð óvissa er um launaþróun næstu ár.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 29. mars sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í nóvember. Forsendur þjóðhagsspár byggja á gögnum sem lágu fyrir í lok maí.

Hér má lesa spánna nánar: Þjóðhagsspá að sumri

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí