Hagvöxturinn ekki aðeins dreginn áfram af fjölgun landsmanna

Landsmönnum hefur aldrei fjölgað eins mikið og í fyrra síðan mælingar hófust fyrir miðja átjándu öld. Í fyrra fjölgaði landsmönnum um 3,1%. Og ekkert lát er á fjölguninni. Á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði landsmönnum um 3,6% frá sama tíma í fyrra. Það má því búast við að metið frá í fyrra verði slegið í ár.

Hér má sjá hlutfallslega fjölgun landsmanna frá 1734. Talan fyrir 2023 er frá fyrsta ársfjórðungi.

Það er óþarfi að rekja Íslandssöguna eftir þessari línu, en þó vert að hafa samhengið í huga. Þær breytingar sem ganga yfir núna eru miklum mun meiri en áhrifin af barnasprengjunni á eftirstríðsárunum þegar aukinn kaupmáttur og velferð fjölgaði mjög barneignum. Þarna sést líka hvurslags áfall Hrunið var í nýliðinni sögu. Þá fækkaði landsmönnum í fyrsta sinn síðan 1888. Hrunið var áfall sem landsmenn höfðu ekki séð í 130 ár.

Hrunið sló niður þróun sem var hafin á fyrstu árum aldarinnar. Fjölgun landsmanna var þá dregin var áfram af innflytjendum. Og eftir Hrun hélt þróunin áfram og með vaxandi þunga. Svo nú fjölgar landsmönnum sem aldrei fyrr.

3,6% fjölgun landsmanna á ári er mikil fjölgun. Landsmenn eru nú tæp 391 þúsund. Með sömu fjölgun fara landsmenn yfir hálfa milljón 2030 og yfir milljón árið 2050. Það er hins vegar ekkert líkleg spá. Eins og sést á línuritinu fer fjölgunin upp og niður, helst sjaldan jöfn og þétt. Þessir áfangar gætu komið seinna. Eða fyrr.
Þessi mikla fólksfjölgun hefur keyrt áfram hagvöxtinn, kannski fyrst og fremst vegna þess að mest aukning hagvaxtar hefur komið frá ferðaþjónustunni sem er mannaflafrek atvinnugrein. Ef við tökum bara fyrsta ársfjórðung þessa árs þá jókst hagvöxturinn um 7,0% á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um 3,6%. Það merkir að landsframleiðsla á mann jókst um 3,2%.

Það er því ekki svo að hagvöxturinn fari bara í að brauðfæða nýja Íslendinga. Mannfjölgunin stendur undir auknum hagvexti sem er umfram fjölgun landsmanna.

Og þá komum við að staðreynd sem passar illa inn í umræðuna eins og henni er stýrt af stjórnvöldum; ríkisstjórn og Seðlabanka. Ef við gerum ráð fyrir að kjarasamningar eigi að tryggja launafólki hlutfallslega jafn stóra sneið af þjóðarkökunni eftir því sem hún stækkar þarf að semja um launahækkanir sem verja launin gegn verðbólgu og ná auk þess í hlut af aukinni landsframleiðslu á mann. Það merkir að í landi þar sem er 9,6% verðbólga og 3,2% hagvöxtur á mann þurfa laun að hækka um 13,1% svo launafólk haldi sínum hlut.

Það var ekki samið um slíkar hækkanir heldur miklum mun lægri. Hagstofan birti í gær gögn sem sýna að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækkaði um 4,8% á fyrsta ársfjórðungi ársins. Á bak við tekjurnar eru ekki bara launatekjur, en þær eru svo ráðandi og aðrar tekjur sveifluðust ekki svo mjög ólíkt launum, að vel má nota þetta sem viðmiðun.

Og þá erum við í stöðu þar sem kaupmáttur heimilanna lækkar um 4,8% þegar hagvöxtur á mann hækkar um 3,2%. Það merkir að sneið heimilanna minnkaði hlutfallslega um 7,8%. Það er þannig sem verðbólga og of litlar launahækkanir í hlutfalli við hagvöxt léku hlut heimilanna. Og þegar hlutur heimilanna minnkar þá stækkar auðvitað hlutur hinna, sem eru fjármagns- og fyrirtækjaeigendur. Það sem kallast er auðvald.

Við erum því ekki aðeins að ganga í gegnum miklar samfélagsbreytingar vegna fólksfjölgunar og þess að fjölgunin er fyrst og fremst fjölgun innflytjenda. Fólkið sem hingað kemur fer fyrst og fremst í láglaunastörf í ferðaþjónustu og skyldum greinum þar sem arðránið er mikið. Sú þróun, og einbeitt stefna stjórnvalda um að halda kaupmætti niðri til að tryggja fjármagns- og fyrirtækjaeigendum sem mestan arð, veldur því að sú sneið sem almenningur fær af þjóðarkökunni skreppur saman á góðæristíma.

Þessi stefna er rekin áfram í nafni baráttu gegn verðbólgu. Og henni er ekki lokið. Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa lýst því yfir að vilji sé til að skerða enn kaupmátt launafólks, að launahækkanir verði langt fyrir innan hækkun verðbólgunnar. Það kalla þau þjóðarsátt, að almenningur éti verðbólguna og taki á sig kaupmáttarskerðingu. Ef það gerist á sama tíma og hagvöxtur heldur áfram mun það leiða til þess að hlutur almennings af þjóðarkökunni svokölluðu mun enn skreppa saman og sneiðin sem auðvaldið tekur til sín stækka.

Þannig er stjórnarstefnan í dag.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí