„Fasteignasalan Fold auglýsir fjölbýlishús með 8 íbúðum og traustum leigutekjum frá opinberum aðilum til sölu. Eignin er á Ásbrú. Í auglýsingu segir að möguleikar séu á að auka tekjur af eigninni með öðru leigufyrirkomulagi, til dæmis í ferðaþjónustu. Ásett verð er 365 milljónir króna.“
Svo hljóðar upphafið af frétt sem birtist á vefnum Suðurnes.net í gær. Fréttin er í raun fasteignaauglýsing fyrir fjölbýlishús sem stendu við Grænásbraut 602. Þetta hús var í eigu ríkisins þar til árið 2016 þegar Kadeco, opinbert fyrirtæki þar sem Sjálfstæðismenn hafa verið áberandi í rekstri, seldi það langt undir matsverði til fyrirtækis í eigu Ólafs Jóns Arnbjörnssonar, skólastjóra Fisktækniskólans.
Ólafur Jón fékk húsið á ekki nema 50 milljónir frá ríkinu og fær nú leigutekjur frá opinberum aðilum fyrir að leigja ríkinu aftur húsnæðið.
En þrátt fyrir það þá hefur Ólafur Jón reynt að selja húsið nánast síðan hann eignaðist það. Fyrst ári eftir kaupin, 2017, og þá hafði verðið rokið upp í 175 milljónir frá þeim 50 milljónum sem Ólafur Jón fékk húsið á. Líkt og fram kom hér fyrir ofan þá er ásett verð í dag 365 milljónir. Eignin hefur því 5,4 faldast í verði. Þess má geta að í ársbyrjun vildi Ólafur Jón fá enn meira, eða 450 milljónir.
Í fundagerð stjórnar Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, eða Kadeco, árið 2016 kemur fram að þáverandi framkvæmdastjóri, Kjartan Þór Eiríksson, hafi kynnt stjórninni tilboð í Grænásbraut 602 frá Ólafi Jóni . Í þeirri stjórn sat meðal annars Sigurður Kári Kristjánsson Sjálfstæðismanður. Því tilboði var hafnað en stjórnin fól framkvæmdastjóra að gera gagntilboð. Það endaði með því að húsið var selt á 50 milljónir svo það má ætla að annað hvort hafi tilboð Ólafs Jóns verið hlægilega lágt eða hann hafi fengið sínu fram.