Líkt og Samstöðin greindi frá í gær þá eru viðskiptablaðamenn á Íslandi sjaldnast með puttan á púlsinum. Allir helstu viðskiptablaðmenn Íslands hjóluðu í Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, fyrir að segja satt frá um alvarleika Íslandsbankamálsins í janúar. Þetta átti við um menn á Viðskiptablaðinu, Morgunblaðinu og Innherja á Vísi.
Þetta er þó fjarri lagi í fyrsta skiptið sem viðskiptablaðamenn eru algjörlega úti á þekju. Þeir sem eru komnir til ára muna eftir ótal dæmum á árunum fyrir hrun, en óþarfi er að fara svo langt aftur. Skemmra er að fara aftur til lok árs 2021 en þá veitt Innherji verðlaun fyrir viðskipti ársins. „Viðskipti ársins að mati dómnefndar Innherja er því einkavæðing Íslandsbanka. Verkefnið reyndist skólabókardæmi um vel heppnaða framkvæmd, sem kallaði á pólitíska forystu og framsýni, þar sem seljandinn náði öllum sínum markmiðum,“ segir í frétt Innherja.
Enn fremur segir í þessari frétt um viðskipti ársins: „Sú ákvörðun að gefa almenningi kost á nokkurs konar forgangi í hlutafjárútboðinu skilaði sér í því að Íslandsbanki er í dag með fjölmennasta hluthafahóp allra skráðra félaga í Kauphöllinni. Salan var því ekki aðeins mikilvæg í átt að því markmiði að minnka áhættu ríkissjóðs af bankarekstri, samtímis því að hámarka endurheimtur hlutar síns, heldur einnig stórt skref í að endurreisa traust almennings á hlutabréfamörkuðum eftir fjármálaáfallið.“
Agnar Kristján Þorsteinsson, bloggari um árabil, vekur athygli á þessu á Facebook. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, bendir á í athugasemd að það hafi verið fyrri salan í Íslandsbanka sem fékk þessi vafasömu verðlaun. Það breytir því þó ekki að það sé hlægilegt að kalla það viðskipti árins. „Þetta er að vísu fyrri salan. Hún tókst (líklega) ágætlega fyrir utan verðið. Það var ansi mörgum milljörðum undir verðmæti bankans… „Smáatriði“ auðvitað,“ skrifar Björn.