Marínó G. Njálsson, fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að svo virðist sem lögbrot nær alltaf óhjákvæmilegur fylgifiskur bankastarfsemi. Hann telur líklegt að rót vandans megi finna í menningu fjármálaheimsins, sem fylgir engum landamærum. Marínó segir að í þessu ljósi sé stórundarlegt að eftirlit með þeim sé enn svo veikt, líkt og mál Íslandsbanka sýndi enn og aftur.
„Lögbrot voru framin sem regluvörður bankans lét viðgangast, en hann á að vera síðasta vörn bankans til að stoppa starfsmenn af þegar þeir eru ekki að fara að lögum og reglum. Spyrja þarf næst: Hvers vegna gaf regluvörður bankans eftir?,“ spyr Marínó.
„Í skýrslunni sagist regluvörður banka vera undir miklum þrýstingi frá bankastjóra að vera sveigjanlegur, þ.e. vera ekki með of mikla afskiptasemi þegar starfsmenn voru að leika sér röngu megin við línuna. Ég veit að minnst einum regluverði var bent á fyrir hvern hann ynni, sem var ekkert nema hótun um starfsmissi. Nú veit ég ekki hvort þetta hafi líka átt við núna, en mér fannst sem regluvörður hafi oft verið fljótur að gefa eftir, þegar öllum mátti vera ljóst að einstaklingur uppfyllti ekki skilyrði að vera hæfur fagfjárfestir.“
Maarínó segist ekki skilja hvers vegna siðleysið sé svo mikið í bönkum. „Auðvitað er það sorglegt, þegar fjármálafyrirtæki virðir ekki lög og reglur sem því eru settar. Reynsla Íslendinga af sex aðskildum bönkum á þessari öld er hins vegar að þeim er fátt heilagt og hafa allt of margir dómar gengið gegn þeim (stjórnendum og starfsmönnum) fyrir utan allt það sem ekki fór til dómstóla. Ég skil ekki hvers vegna siðleysið er svona mikið,“ segir Marínó.
Hann bendir svo að lokum á að það var í raun almenningur sem benti á lögbrotið, ekki eftirlitsaðilar. „Því miður virðist menning fjármálaheimsins vera svo. Bankar um allan heim hafa verið gripnir við lögbrot eða hafað aðstoðað viðskiptavini við þau. Aðrir geirar hafa svo sem einnig verið drjúgir við sömu háttsemi, en fjármálageirinn er gjörsamlega sér á báti hvað umfangið varðar og yfirvöld virðast lítið gera til að stoppa þetta. Höfum í huga, að rannsókn FME fór líklega af stað vegna þess að almenningur og nokkrir fjölmiðlar bentu á líkleg lögbrot, en ekki vegna þess að Bankasýslan, eftirlitsaðili útboðsins, hafi kvartað. Nei, honum var alveg sama því „réttir“ aðilar fengu að græða.“