Björn Bjarnason, Sjálfstæðismaður og fyrrverandi menntamála- og dómsmálaráðherra, segir að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að stöðva hvalveiðar í sumar hafi „grafið undan stjórnarforystunni“. Þetta segir Björn á bloggi sínu en þar tekur hann saman það helsta, að hans mati, í viðtali Gísla Freys Valdórssonar við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálahagsráðherra, í hlaðvarpinu Þjóðmál.
Í frásögn Björns þá er þessi ákvörðun Svandísar helsta hneyksli ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. „Um ákvörðun Svandísar er deilt vegna þess hvernig að henni var staðið í ljósi stjórnsýslu og laga um hana. Nú er einnig ljóst að ákvörðun er brot gegn niðurstöðu sem um var samið við myndun ríkisstjórnarinnar. Þegar ráðherra í flokki forsætisráðherra gengur fram á þennan hátt er grafið undan stjórnarforystunni. Nú hefur þingflokksbróðir Svandísar síðan gagnrýnt hana fyrir afstöðu hennar til strandveiða,“ segir Björn.
Á hinn boginn segir Björn að gagnrýni á störf Bjarna sé varla þess virði að ræða: „Leyfi menn verkunum að tala og árangrinum sem náðst hefur að njóta sín eru stór orð gagnrýnendanna í raun léttvæg.“