Á þriðja hundrað manns tóku þátt í fyrstu hinsegin göngunni sem haldin hefur verið á Húsavík í dag. Um helgina eru Mærudagar á Húsavík, en það er árleg bæjarhátíð sem fyrst var haldin árið 1995. Gangan byrjaði við Sundlaug Húsavíkur og endaði við Vegamótatorg.
Það var Hinsegin félag þingeyinga sem stóð fyrir göngunni. Félagið var stofnað á síðasta ári.
Aðalbjörn Jóhannsson, talsmaður félagsins sagði í ræðu að göngunni lokinni að það að vera hinseigin þingeyingur væri ekki það sama og að vera hinsegin Íslendingur, allt of mikið af fólki ólst þar upp og kaus að flytja burt vegna þess að það var hinsegin – eins og hann sjálfur. Hann sagði þó að nú væri ástandið sem betur fer breytt, áður væri verst að vera hinsegin í Þingeyjarsýslu, en nú kallaði hann eftir því að það yrði best að vera hinsegin þar.
Aðalbjörn sagði í samtali við blaðamann hann væri mjög ánægður með hversu margir hefðu mætt og tekið þátt í þessari fyrstu hinsegin göngu Húsavíkur.