Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, skrifaði árið 2018 greinagerð vegna Lindarhvols ehf. Ráðamenn, þá sérstaklega ýmsir Sjálfstæðismenn, hafa reynt að hylja þá skýrslu fyrir almenningi. Skemmst er að minnast þess þegar Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, neitaði að afhenda hana.
DV fullyrðir að það hafi þessa nú frægu skýrslu undir höndum og tekur saman helsta efni hennar. Erfitt er að taka hana saman í stuttu máli, enda skýrslan löng, 70 blaðsíður. Svo virðist sem það séu helst þrjú atriði sem séu einna mikilvægust.
Í fyrsta lagi þá hafi verið stunduð mjög óvönduð og ófagleg vinnubrögð af stjórn Lindarhvols og einnig Steinari Þór Guðgeirssyni lögmanni sem sá um rekstur félagsins.
Þetta hafi svo leitt til atriði númer tvo. Stjórnin hafi ekki sett sér lágmarksverð sölueigna, líkt og regluverk hafði gert ráð fyrir. Stjórnin miðaði einungis við bókfært virði eigna en ekki verðmat, sem var oft mun hærra. Ríkið virðist hafa orðið af miklum verðmætum vegna þessa.
Þriðja atriðið er líklega það vafasamasta og ekki eru öll kurl komin til grafar hvað það varðar. Það varðar óútskýrðar greiðslur sem Sigurður reyndi að fá skýringu fyrir en mætti gífurlegri tregðu frá fjármálaráðuneytinu.
Í sumum tilvikum fékk hann engin svör. Slíkar færslur voru margar en í frétt DV er sérstaklega fjallað um eina. Það var 210 milljón króna færsla frá Arion banka sem var einfaldlega merkt „Klakki“ og innfærð sem stöðugleikaframlag. Sigurður reyndi talsvert að spyrjast fyrir um þessa greiðslu, þar sem hann taldi hana ekki stemma. Hann fékk aldrei svör við því.