„Stjórnmálaflokkur sem berst fyrir framgangi hugsjóna – vill hrinda hugmyndum í framkvæmd – þarf stöðugt að vega og meta með hvaða hætti það er best gert. Það er langt í frá sjálfgefið að mesti árangurinn náist með því að taka þátt í ríkisstjórn. Ef fá stefnumál ná fram að ganga með samstarfi í ríkisstjórn – ef stöðugt eru lagðir steinar í götu frelsis – er illa hægt að réttlæta stuðning við ríkisstjórn. Á stundum er betra, til lengri tíma litið, að standa tímabundið utan ríkisstjórnar, huga að rótunum, ydda hugmyndafræðina, meitla og slípa nýja hugsun og stefnu í takt við breytta tíma,“ skrifar Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblað dagsins.
Í síðustu grein skrifaði Óli gegn Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og boðaði að Sjálfstæðisflokkurinn yrði í stjórnarandstöðu við þann ráðherra og talaði gegn ríkisstjórnarsamstarfinu við Vg. Nú ræðir hann um að stjórnarandstaða geti verið góð og þroskandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eins og hann sé að telja kjark í flokkinn til að slíta samstarfinu og boða til kosninga.
„Fyrir 12 árum skrifaði ég í Þjóðmál um stöðu Sjálfstæðisflokksins. Þar hélt ég því fram að sjálfstæðisfólk ætti að færa umræðuna um þjóðfélagsmál yfir á heimavöll Sjálfstæðisflokksins. Pólitík er samkeppni hugmynda „og sú samkeppni verður ekki unnin með því að benda á hvað stefna andstæðingsins sé slæm, heldur með því að sannfæra kjósendur um að sjálfstæðisstefnan sé besta trygging fyrir sókn til betri lífskjara og heilbrigðara þjóðfélags“. Með öðrum orðum: Sjálfstæðisflokkurinn eigi að endurheimta dagskrárvaldið. Tala af sannfæringu fyrir takmörkuðum ríkisafskiptum, lágum sköttum og auknu frelsi einstaklinganna, með áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Marka stefnuna í þjóðaröryggismálum með tryggri varðstöðu um fullveldið. Taka málstað atvinnulífsins, sem er forsenda þess að hægt sé að byggja upp öflugt almannatryggingakerfi og gott heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum óháð efnahag,“ skrifar Óli Björn.
Og bætir við: „Fyrir þann sem lagt hefur fyrir sig stjórnmál er einnig nauðsynlegt að átta sig á því að barátta fyrir framgangi frelsis er ekki aðeins háð í þingsal eða í sveitarstjórnum. Dagskrárvaldið er hægt að endurheimta með öðrum og jafnvel áhrifaríkari hætti.“