Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í færslu á Facebook að ríkisstjórnin sé í raun orðin óstjórnhæf. Því megi vel segja að nú sé ríki algjört stjórnleysi á Íslandi en það eina sem haldi ríkisstjórninni saman nú er ótti við kosningar. Öllum þremur stjórnarflokkum er spáð miklu fylgistapi.
„Ríkisstjórnin getur ekki stjórnað landinu lengur. Þetta er að koma betur og betur í ljós. Þau geta ekki unnið saman og það ríkir stjórnleysi og stefnurek í veigamiklum málum sem brenna á þjóðinni: efnahags- og velferðarmálum, heilbrigðismálum, orkumálum, útlendingamálum og svona mætti lengi telja,“ segir Jóhann Páll.
Hann segir að stjórnarflokkarnir óttist verulega að ganga til kosninga. „Nú hangir ríkisstjórnin fyrst og fremst saman á óttanum við kjósendur. Sameiginlegum ótta við að mæta fólkinu í landinu í kosningum. Þetta er það sem stjórnarflokkarnir eiga helst sameiginlegt um þessar mundir – og fyrir vikið getur ríkisstjórnin hvorki lifað né dáið. Þetta er komið gott.“