„Sigurður Ingi Jóhannsson safnaði til sín verkefnum eins og hann gat inn í innviðaráðuneytið. Nú stendur hann eftir með öngulinn í rassinum. Engir peningar til, ekki einu sinni til að laga lífshættulega vegi. Um allt land. Óburðug staða hjá ráðherranum,“ skrifar Sigurjón Magnús Egilsson á vef sinn Miðjuna.
Hann fjallar þar um veika stöðu Sigurðar Inga sem hann segir birtist oftar en nokkur annar með glærusýningar í fréttatímum. „Rogginn segir hann þá frá því sem fram undan er. Vandi Sigurðar er Bjarni fjármálaráðherra. Hann skammtar of naumt til að Sigurður Ingi geti fylgt eftir því sem hann hefur kynnt fyrir okkur með glærusýningunum,“ skrifar Sigurjón.
„Peningar eru af skornum skammti hjá Vegagerðinni og sveitarfélögum. Þar spila væntanlega inn í verðbólga og vaxtastig og kreppuástandið hjá sveitarfélögunum,“ vitnar Miðjan í Sigþór Sigurðsson framkvæmdastjóra malbikunarfyrirtækisins Colas úr Mogga dagsins. Sigþór segir að nú stefni verkleysu þar sem hvorki ríki né sveitarfélög hafi efni á viðhaldi vega og gatna.
„Það eru engin verk komin af stað. Reykjanesbraut og Arnarnesvegur eru ekki komin af stað og í rauninni er ekki búið að bjóða neitt meira út. Þetta er fyrsta árið hjá okkur frá hrunárunum þar sem við erum í raun og veru að horfa fram á mikinn samdrátt og fækkun starfsfólks snemma í haust,“ segir Sigþór í Mogganum.
Meira úr Moggafréttinni: „Mörg ár þarf til að koma ástandi vega í viðunandi horf. Viðhald á vegum hins opinbera, hvort sem er á vegum eða byggingum, er ekki vinsælt viðfangsefni meðal stjórnmálamanna að mati framkvæmdastjórans. Það stefni í óefni. Hann segir að opinber fyrirtæki vanræki viðhald sem birtist fólki í myglu í fjölmörgum byggingum. „Þetta er ekki það vinsælasta meðal stjórnmálamanna en menn verða að vakna til lífsins um að það þurfi að halda við eignum sínum,“ segir hann.“
Sjá skrif Sigurjóns á Miðjunni: Sigurður Ingi með öngulinn í rassinum.
Sigurjón fjallaði um Sigurð Inga og aðra forystumenn ríkisstjórnarinnar og stöðu flokkanna við Rauða borðið í vikunni. Þá umfjöllun má sjá í spilaranum hér að neðan.