Ein króna af hverjum 45 sem rennur um hagkerfið endar sem hreinn hagnaður banka

Samanlagður hagnaður stóru bankanna þriggja var 40,3 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins. Kvika banki hefur ekki klárað sitt uppgjör en bankinn skilaði 1,4 milljarða hagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins. Ef við bætum Kviku við má ætla að hagnaður þessara fjögurra banka hafi verið um 43 milljarðar króna. Það er um 2,2% af landsframleiðslu á fyrri helmingi ársins. Af öllu því fé sem rennur um hagkerfið endar því ein króna af hverjum 45 sem hreinn hagnaður í bankakerfinu.

Þetta er stórundarleg ráðstöfun fjár og undrunarefni að þessu sé ekki mótmælt hástöfum. 43 milljarðar króna á sex mánuðum jafngilda auðvitað 86 milljörðum króna á ársgrundvelli. Þetta er feiknalegar fjárhæðir í litlu hagkerfi. Á Bandaríska mælikvarða jafngildir þetta því að bankakerfið þar skilaði 590 milljörðum dollara í hreinan hagnað. Ef það kæmi á daginn myndu líklega brjótast út götuóeirðir þar í landi. Nóg er fjármálakerfið í Bandaríkjunum gagnrýnt fyrir fyrirferð og græðgi. Hagnaður þess var í fyrra um 250 milljarðar, sem er nokkuð fyrir innan 1% af landsframleiðslu Bandaríkjanna. Ef íslenskir banka sættu sig við slíkan hagnað væri hagnaður þeirra á fyrri helming ársins 18,2 milljarðar króna en ekki 43 milljarðar. Mismunurinn, 24,8 milljarðar króna, yrðu þá eftir út í hagkerfinu, hjá fólki og fyrirtækjum. Það má kalla séríslenskan bankaskatt sem lagður er á fólk og fyrirtæki.

Á fyrri hluta ársins skilaði Íslandsbanki 12,4 milljarða króna hagnaði, Landsbankinn: 14,5 milljarði og Aríon 13,4 milljörðum. Í öllum bönkunum jókst vaxtamunurinn á tímum verðbólgu, en verðtryggð útlán færa bönkunum extra gróða í slíkri tíð þar sem innlánin eru verðtryggð að miklu minna leyti. Bankarnir hafa líka fleytt vaxtahækkunum Seðlabankans beint yfir á lán til fólks og fyrirtækja. Veltureikningar bera til dæmis 2,5% innlánsvexti í 7,6% verðbólgu dagsins en yfirdráttarheimild á þessa reikninga 16,5% útlánsvexti. Innlánin eru með neikvæða vexti upp 4,7% en útlánin jákvæða upp á 8,3%.

Vaxtamunur Íslandsbanka jókst á öðrum ársfjórðungi úr 2,9% í 3,2%. Hjá Landsbankanum jókst vaxtamunurinn úr 2,5% í 2,9%. Og hjá Aríon úr 3,1% í 3,2%.

Rök bankanna fyrir þessum gríðarlega hagnaði er að arðsemi eiginfjár íslensku bankanna sé ekki mikið hærri en í bönkum annarra landa. Og þar sem íslenski seðlabankinn geri meiri kröfur um eigið fé banka en víðast annars staðar þurfi íslensku bankarnir að hafa meiri vaxtamun hér og sækja með honum meiri hagnað úr samfélaginu til að færa eigendum sínum meiri arð.

Þarna er málunum stillt upp á undarlegan máta. Seðlabankinn gerir sérstakar kröfur um eigið fé íslenskra banka til að forða öðru bankahruni, en fyrir fjórtán árum féllum bankarnir yfir samfélagið og urðu valdir af stórkostlegum skaða. Hluthafar, stjórn og stjórnendur bankanna líta hins vegar ekki svo á að þetta sé kvöð sem eigendur íslensku bankanna eigi að bera, að þeir verði að sætta sig við lægri ávöxtun á eigið fé bankanna og að verðmæti hlutabréfanna endurspegli þessa kvöð, að þau séu lægra metin sem hlutfall af eigin fé en í íslenskum bönkum en annars staðar.

Bankarnir velta þessari öryggiskröfu út í vaxtamuninn og láta fólk og fyrirtæki bera kostnaðinn við að færa eigendum aukinn arð. Krafa Seðlabankans um aukið öryggi bankakerfisins til að vernda almenning fyrir öðru Hruni leiðir því til meira vaxtaokurs sem grefur jafnt og þétt undan fjárhagslegu öryggi almennings.

Arðsemi þessa aukna eiginfé er líka umtalsverð. 10,3% hjá Landsbanka, 11,5% hjá Íslandsbanki og 15,5% hjá Aríon. Ef kvaðir um aukið eigið fé af öryggisástæðum væri tekið frá væri þetta hlutfall auðvitað miklu hærra.

Rekstur banka á Íslandi er tiltölulega einfaldur business. Bankarnir skipta með sér markaðnum og eru ekki í neinni samkeppni nema gagnvart allra stærstu kúnnunum, sem þeir bjóða bestu kjörin. Bankarnir gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki og njóta við það verndar stjórnvalda. Þeir eru hluti af regluverki opinbers veitukerfis, sem dreifir fé um samfélagið. Og þetta opinbera kerfi sem mótað er af stjórnvöldum sættir sig við að ein króna af hverjum 45 sem veltur um hagkerfið endi sem hreinn hagnaður bankanna. Sem eigendur bankanna greiða sér að miklu leyti út sem arð. Þetta er séríslensk skattheimta í þágu fjármagnseigenda.

Myndin er af bankastjórunum: Jón Guðna Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka, Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans og Bene­dikt Gísla­son bankastjóri Arion banka.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí