Hægrimenn í Noregi vilja veita sveitarfélögum heimild til að leggja gjöld á ferðamenn

„Það þykja nokkur tíðindi að Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og leiðtogi Hægriflokksins, vilji að sveitarfélög fái heimild til að leggja sérstakt gjald á ferðamenn til að mæta kostnaði vegna þeirra. Samtök atvinnulífsins eru mótfallin gistináttagjaldi sem leiddi til að enn dýrara yrði að heimsækja Noreg,“ skrifar Óðinn Jónsson blaðamaður í frétt á Túrista, netmiðil um ferðaþjónustu.

„Þegar hljóð og mynd fara saman í norskum stjórnmálum er forysta Hægriflokksins og samtaka atvinnurekenda í landinu, NHO, einhuga um álögur á atvinnulífið. En þrýstingur frá félagsmönnum í sveitarfélögum víða um land hefur knúið fram breytta afstöðu forystu Hægriflokksins gagnvart gjaldtöku af ferðamönnum. Ríkisstjórn Verkamannaflokksins hefur þegar lýst fyrirætlunum um að kynna síðar á árinu tillögur sínar um túristaskatt,“ heldur Óðinn áfram.

„Á landsfundi Hægriflokksins í vor var samþykkt ályktun um að þau sveitarfélög sem svo kysu fengju heimild til að krefja ferðamenn um sérstakt heimsóknargjald. Fyrir þingkosningarnar hafði leiðtogi flokksins, Erna Solberg, þá forsætisráðherra, lýst sig andsnúna slíkri gjaldtöku. Nú hefur hún skipt um skoðun og í viðtali við TV2 lýsti hún stuðningi við túristaskatt en segir þó: „Gjaldtakan þarf að vera í samræmi við almenna löggjöf og því verður að finna skynsamlegar leiðir.“

Erna Solberg sagði í sjónvarpsviðtalinu að allir hljóti að geta fallist á einhvers konar notendagjöld, að ferðamenn greiddu fyrir afnot af salernum og hreinsun á vinsælum viðkomustöðum. Talsmenn ferðaþjónustu í samtökum atvinnurekenda lýsa hinsvegar miklum efasemdum, segja að gjaldtaka af ferðamönnum væri óskynsamleg. Sérstaklega myndi hótelskattur eða gistináttagjald gera Noreg enn dýrara land að heimsækja. Ekki væri þar á bætandi.“

Finna má fleiri fréttir af ferðaþjónustu á Túristi.is. Myndin er af Ernu Solberg, formanni Hægrifloksins og fyrrum forsætisráðherra. Hægri flokkurinn er einskonar Sjálfstæðisflokkur þeirra Norðmanna, þó ekki jafn þaulsetinn við völd.

Rætt hefur verið um skattlagningu og gjaldtöku af ferðamönnum á Íslandi frá því að ferðamönnum tók að fjölga upp úr gosinu í Eyjafjallajökli en þær hugmyndir hafa strandað á Sjálfstæðisflokknum. Ferðaþjónustan greiðir 11% virðisaukaskatt á meðan aðrar atvinnugreinar borga 24%. Útflutningur sjávarútvegs ber reyndar 0% virðisauka en getur dregið innskatt af aðföngum frá.

Í júní gistu yfir 38 þúsund erlendir ferðamenn á landinu að meðaltali hverja nótt. Það eru um 4.180 fleiri en í fyrra. Álagið á grunnkerfi samfélagsins og innviði vegna fjölgunar ferðamanna er því mikið. Og stærsti hlutinn af því verkafólki sem hingað kemur fer í vinnu við að sinna ferðafólkinu. Ofþensla í ferðaþjónustu er því meginástæða aukins álag á grunnkerfin, enn frekar hér en í Noregi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí