Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðingur í fjármálum og reikningsskilum banka sagði að sumu leyti rétt sem bankafólk héldi fram að regluverk banka hefði gerbreyst eftir bankahrunið 2008. Að umhverfið væri nú orðið annað. Erlent regluverk hefur verið hert og það síðan tekið upp hér. En aðeins í orðanna hljóðan. Það kom í ljós í rannsókn fjármálaeftirlitsins að aðeins um 1/5 af samtölunum við kaupendur bréfanna í bankanum voru tekin upp þrátt fyrir að það væri klár skylda. Þetta sagði Ásgeir Brynjar að hefði líklega kostað Íslandsbanka starfsleyfið í öðrum löndum, þar sem gerð er krafa um að farið sé eftir reglum.
En í því liggur vandi íslenska bankakerfisins. Þótt reglur séu hertar breytist ekkert. Við sáum þetta við söluna á Borgun, sem seld var til valinna manna án þess að leita tilboða. Og þetta afhjúpast í úttekt fjármálaeftirlitsins á sölu Íslandsbanka á eigin bréfum. Og mun að öllum líkindum koma fram í úttekt fjármálaeftirlitsins á öðrum söluaðilum í útboðinu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka.
Vandinn er að þau sem fara ekki eftir reglum breyta ekki hegðun sinni þótt reglur séu hertar. Og því miður er augljóst að það er vandinn í íslenska fjármálakerfinu. Þar er svífur einhver andi yfir vötnunum um að allt megi gera ef hægt sé að græða á því. Að þá verði reglurnar aukaatriði. Tilgangurinn helgar meðalið. Ef gróði er í boði þá er gróðasóknin æðri reglunum.
Í samtalinu við Rauða borðið hélt Ásgeir Brynjar því reyndar fram að þetta væri nánast lögmál í íslensku samfélagi. Stjórnvöld vernduðu rétt fjármagns- og fyrirtækjaeigenda til að græða á almenningi. Þetta er megininntak vaxtahækkana Seðlabankans sem miða að því að tryggja fjármagnseigendum jákvæða ávöxtun þótt slíkt sé ekki samfélagslega hagkvæmt þegar samfélagið gengur í gegnum tímabundna krísu. Og þetta á við húsnæðismarkaðinn þar sem réttur leigusala og verktaka til að græða er verndaður en réttur almennings til að búa í ódýru og öruggu húsnæði er ekki virtur. Og þetta á við um svo til alla markaði þar sem hefur orðið markaðsbrestur vegna fákeppni, sem leiðir til okurs og verri lífskjara almennings.
Ásgeir Brynjar var sérstaklega spurður um bankakerfið sem hagnaðist um 43 milljarða króna á fyrri hluta ársins. Um 2,1% af landsframleiðslunni endar sem hreinn hagnaður bankanna, eins og fram kom á Samstöðinni í gær: Ein króna af hverjum 45 sem rennur um hagkerfið endar sem hreinn hagnaður banka.
Ásgeir Brynjar sagði þetta mikið mein í samfélaginu. Það hafi verið tækifæri eftir Hrun að laga bankakerfið svo það þjónaði hagsmunum fólks og fyrirtækja en nýtti ekki aðstöðu sína og völd til að draga til sín óheyrilegan hagnað og færa eigendum sínum. Það hefði ekki verið gert heldur ákváðu stjórnvöld að selja einkaaðilum bankanna, svo þeir geti haldið áfram að blóðmjólka samfélagið. Ásgeir Brynjar sagði bankastarfsemi einfalda í eðli sínu og ekkert réttlætti þennan mikla hagnað né há laun, kauprétti og bónusa til bankafólksins.
Ásgeir Brynjar bauð sig fram til stjórnarsetu í Íslandsbanka í síðustu viku en náði ekki kjöri. Hann sagðist ekki hafa gert það til að breyta bankakerfinu í stórum atriðum, taldi ekki að einum stjórnarmanni væri það fært. Hann sagðist hafa boðið sig fram til að vera krítíski maðurinn í stjórninni, sá sem efaðist um stefnuna og spyrði spurninga. Ásgeir Brynjar segir það alltaf hættulegt, eins og sagan hafi sýnt aftur og aftur, að safna saman of líku fólki í stjórn fyrirtækja og stofnana, fólki með sama bakgrunn, sömu skoðanir og sem er jafnvel allt tengt sama stjórnmálaflokkunum og klíkunum.
Heyra má og sjá samtalið við Ásgeir Brynjar í spilaranum hér að neðan.