Ráðafólk á Íslandi heldur því að almenningi að laun hér séu hærri en annars staðar. Svo er ekki og er auðvelt að sýna fram á það. Lágmarkslaun í Sviss eru t.d. allt að 24 frönkum á tímann, sem gera um 3.623 íslenskra krónur. Lægsti taxti Starfsgreinasambandsins er 2.321 kr. á klukkustund. Ef hækka ætti lægstu laun á Íslandi til jafns við það sem er í Sviss þyrfti að hækka þau um 56%. Svo langt er í að laun á Íslandi séu álíka og í Sviss, þar sem lágmarkslaun eru hæst í heimi.
Verðlag í Sviss er reyndar hærra en á Íslandi. Mismunurinn er 8,6%. Til að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi yrði jafn og kaupmáttur lægstu launa í Sviss væri nóg að hækka lægstu laun á Íslandi um 43%. Og finnst kannski sumum nóg.
Sé miðað við fulla vinnu, 173,33 klukkustundir á mánuði, jafngilda lægstu laun í Sviss 573.883 kr. miðað við íslenskt verðlag. Lægstu laun á Íslandi skila með sömu forsendum 402.235 kr. Mismunurinn er tæplega 172 þúsund krónur. Fólk getir rétt ímyndað sér hversu miklu það myndi muna fyrir íslenskt launafólk að fá slíka hækkun.
Í fyrra var landsframleiðsla á mann meiri í Sviss en á Íslandi, 12,2 m.kr. í Sviss á móti tæplega 9,7 m.kr. á Íslandi. Jafnvel þótt við tækjum tillit til þessa þá jafngilda svissnesku lágmarkslaunin rúmlega 454 þús. kr. á Íslandi að teknu tilliti til lægra verðlags og lægri landsframleiðslu á mann. Eftir sem áður yrði að hækka íslensku launin um 13% svo þau yrði sambærileg og þau svissnesku. Þá væri fólk að sætta sig við að landsframleiðsla á mann yrði áfram lægri en í Sviss, sem engin ástæða er til að gera.
Í gær var dregið fram hér á Samstöðinni að laun á Íslandi væri mun lægri en lágmarkslaun í tilteknum atvinnugreinum í Noregi. Miðað við þann samanburð þyrfti að hækka laun ræstingarfólks á Íslandi um 32%, sérhæfð fiskvinnslufólks um 34% og sérhæfðra byggingaverkamanna um 44%.
Noregur og Sviss eru utan Evrópusambandsins eins og Ísland. Í þessum löndum er verðlagt hátt en líka laun, og lægstu laun mun hærri en á Íslandi. Svo íslenskt láglaunafólk búi við sambærileg kjör og láglaunafólk í þessum löndum þarf að hækka laun á Íslandi rausnarlega, um 40% og þar umfram.