Var Árni Magnússon skúrkur? „Það brann svona þriðjungur af bókum sem Árni hafði „bjargað“ frá fólkinu“

Rithöfundurinn Einar Kárason veltir því fyrir sér í pistli sem hann birtir á Facebook hvort við Íslendingar séum að upphefja Árna Magnússon allt of mikið. Stofnun Háskóla Íslands í íslenskum fræðum er kennd við hann og svo eru sumir sem muna eftir honum á hundrað krónu seðlinum, meðan hann var og hét. Einar segir að líklegra sé að Árni hafi verið skemmdarvargur í raun, handritin sem hann átti að hafa bjargað frá Íslandi brunnu mörg í Kaupmannahöfn. Raunar má segja að Árni hafi verið flugumaður dönsku krúnunnar sem vildi eigna sér sagnaarf Íslands.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Einars um málið í heild sinni.  

Af ýmsum ástæðum, og eftir því sem ég sekk mér meira ofan í þau fræði, hef ég fyllst meiri efasemdum um gagnsemi Árna Magnússonar fyrir íslenska bókmenntasögu, en við hann er okkar aðal fornbókmenntastofnun samt ennþá kennd.

     Árni safnaði saman handritum á Íslandi á árunum um og fyrir 1700 og lét sigla til Danmerkur, og aðalklisjan er að hann hafi þannig „bjargað“ þeim. Vert er þess að minnast að hann var ekki að þessu í eigin erindum, heldur danska konungsvaldsins, sem sárvantaði eigin menningar- og forsögu, mest í samkeppni við sænska konungsríkið. Árni, með góðum launum og fríðindum að utan, kom með bréf til Íslands upp á konunglega tilskipun um að sér skyldi tafarlaust afhent allt handrita- og bókarkyns sem varðaði „oldnordisk kultur“ – því að það væri hér með eign Danakonungs. Öldina á undan hafði sama erlenda konungsvald stolið öllu verðmætu úr íslenskum kirkjum, klaustrum og kirkjujörðum og látið sigla í skipsförmum til Danmerkur, í nafni siðbótar.

     Það að Árni var sendur, og launaður af hirðinni, en ekki þeir ólæsu tuddar sem stálu kirkjugóssinu, var af því að honum var treystandi til að finna það sem skipti máli; hinir hefðu ekki séð muninn á skóbót og blaði með erindi úr Hávamálum.

     Þau rit sem þannig voru brottnumin höfðu sumpart geymst hér á Íslandi, og það oft í sæmilegasta ástandi, öldum saman, og hér var fólk sem kunni að lesa textann sem í þeim stóð. Það er engin sérstök ástæða til að ætla þær bækur hefðu ekki varðveist áfram hér á landi, í skárstu húsum á höfðingja- og prestsetrum, enda án efa verðmætasta eign staðanna.

     Árni „bjargaði“ þeim til Kaupmannahafnar, sem þá var hrein eldsgildra, með timburhúsum hrófað upp hvert ofan á annað innan þrengsla borgarmúranna. Þar var óburðugt slökkvilið og fyrir staðnum réðu undirmálsmenn. Handritastabbinn var settur í hrúgu upp á kirkjuloft, og þegar borgin brann eins og við var að búast fáum áratugum síðar (1728) brann líka svona þriðjungur af bókum og ritum sem Árni hafði „bjargað“ frá fólkinu sem hafði varðveitt þessi rit öldum saman.

     Danir gerðu Árna að mikilli hetju fyrir að hafa fært þeim þessi verðmæti, og nefndu fræða- og menntastofnun sína um þessi mál eftir honum. En hvers vegna við hér heima erum líka að gera það, það er vægast sagt athugunarefni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí