Vill gefa sáttasemjara völd til að blása af verkföll launafólks

„Mér finnst þetta pólitískt hugleysi, þetta er meðvirkni með verkalýðshreyfingunni,“ segir Þorsteinn Víglundsson, fyrrum þingmaður Viðreisnar og þar áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um þá ákvörðun Guðmundar Inga Guðbrandssonar vinnumarkaðsráðherra að leggja ekki fram frumvarp í vor um stóraukin völd ríkissáttasemjara til að slá af verkföll launafólks.. „Það er alveg augljóst að verkalýðshreyfingin setti sig upp á móti því að þessi ákvæði um ríkissáttasemjara væru styrkt í löggjöf og hún var látin komast upp með það. Að öllum líkindum erum við að fara inn í næstu kjarasamninga með algjörlega bitlausan ríkissáttasemjara,“ segir Þorsteinn.

Ummælin féllu í hlaðvarpsþættinum Chess after dark, sem er einn margra hægri sinnaðra hlaðvarpsþátta þar sem viðmælendur ræða samfélagsmál eins og nýfrjálshyggjan hafi ekki hrunið og afhjúpast sem stéttabarátta hinna ríku gegn almenningi. Ummæli Þorsteins voru flest á þessum nótum, að verkalýðshreyfingin væri eyðileggingarafl í samfélaginu sem yrði að tjóðra.

Þorsteinn grét það að svokölluð miðlunartillaga Aðalsteins Leifssonar sáttasemjara hafi ekki verið borin undir atkvæði félaga í Eflingu, þótt dómstólar hafi stutt afstöðu stjórnar Eflingar að gera það ekki. Miðlunartillaga Aðalsteins var krafa Samtala atvinnulífsins óbreytt. En Þorsteini fannst það góð tillaga.

„Hins vegar var það fullkomið kjaftæði í verkalýðshreyfingunni að halda því fram að um það væri algjörlega óskrifuð regla að þetta mætti aldrei gera nema með samþykki allra. Það hafa fyrri sáttasemjarar bent á, að það hafa verið gerðar miðlunartillögur sem voru í óþökk annars hvors aðilans. Á endanum er þetta tillaga sáttasemjara til að höggva á hnút og knýja forystu verkalýðshreyfingarinnar til að leggja tillöguna fyrir félagsmenn sína,“ segir Þorsteinn.

Og heldur áfram: „Ég er nokkuð viss um að miðlunartillaga Aðalsteins hefði verið samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta Eflingarmanna. Það var mjög slæmt að hún fékk aldrei að ganga til atkvæða og mjög slæmt í raun og veru að þetta verði til þess að, af því er mér fannst, mjög góður ríkissáttasemjari skyldi hrekjast úr embætti, væntanlega einmitt af því að hann taldi sig ekki hafa fengið þann stuðning stjórnvalda til þess að hafa einhver raunveruleg úrræði. Að því leytinu til var þetta stórt skref aftur á bak í vinnumarkaðslíkaninu og ekki til þess að auðvelda úrlausn næstu kjarasamninga.“

Þorsteinn er þarna að leggja til að ríkissáttasemjari geti slökkt á verkfallsaðgerðum launafólks, nokkuð sem myndi ganga í berhögg við almenna sátt í okkar heimshluta síðustu hundrað árin eða svo um að heimila launafólki að nota verkfallsvopnið til að ná fram bættum kjörum. Sáttin er um að lýðræðissamfélagi verði að leyfa stéttaátökin og viðurkenna að þau geti leitt til efnahagslegs taps fjármagns- og fyrirtækjaeigenda ekkert síður en verkafólksins.

Og Þorsteinn hafnar algjörlega jákvæðum áhrifum verkalýðshreyfingarinnar á samfélagið undanfarna öld, vill koma í veg fyrir að hún beiti sér í húsnæðismálum og öðrum félagslegum umbótum. Og þá líklega í þeim tilgangi að hin ríku, fjármagns- og fyrirtækjaeigendur geti óáreittir stýrt stjórnmálunum og ráðið einir hvert samfélagið stefni.

„Sem lýðræðissamfélag erum við með hvað mestu pólitísku þátttöku meðal vestrænna þjóða, gríðarlega hátt hlutfall fólks sem nýtir kosningarétt sinn. Í verkalýðshreyfingunni er verið að kjósa forystu með atkvæðum 5-10% félagsmanna (þ.e.a.s. á almenna vinnumarkaðnum, þátttakan er mun hærri á þeim opinbera),“ segir Þorsteinn.

„Þá getur maður spurt, hvert er pólitískt umboð forystu verkalýðshreyfingarinnar á almenna vinnumarkaðnum til þess að gera víðtæka kröfugerð á lýðræðislega kjörin stjórnvöld þegar sömu stjórnvöld sitja í umboði meirihluta kjósenda hverju sinni? Þessi forysta [verkalýðshreyfingarinnar] situr klárlega ekki í umboði meirihluta kjósenda og ekki einu sinni nálægt því,“ heldur hann áfram.

Viðtalið við Þorsteinn er eitt merki þess að hægrið á Íslandi vill brjóta niður áhrif verkalýðshreyfingarinnar, takmarka áhrif hennar. Enda er slíkt lykilþáttur í nýfrjálshyggjunni, sem í reynd eru aðgerðir hinna ríku í stéttabaráttunni. Þorsteinn vill hefta þessi áhrif, sem almennt eru talin hafa byggt upp flest það góða í samfélaginu í okkar heimshluta. Frumvörp þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem ætlað er til að draga úr félagsaðild að verkalýðsfélögum eru önnur mörk um þessar áherslur. Og sú staðretnd að Sjálfstæðisflokknum tókst að fá það samþykkt í ríkisstjórn í vetur að lagt yrði fram frumvarp um aukin völd ríkissáttasemjara svo hann gæti stöðvað verkfallsaðgerðir. Eða tekið verkfallsréttinn af samtökum launafólks, með öðrum orðum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí