Deilt um hvalveiðar innan Samfylkingarinnar

Á meðan Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar segir að Samfylkingin styðji ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að heimila aftur hvalveiðar segist Helga Vala Helgadóttir þingkona ekki hafa séð fullnægjandi rök matvælaráðherra fyrir því að heimila hvalveiðar að nýju Og margt flokksfólk bregst hart við yfirlýsingu Jóhanns.

Í stefnu Samfylkingarinnar um loftslag, náttúruvernd og umhverfi segir: „Hafið umhverfis Ísland og strendur landsins geyma vistkerfi sem okkur ber að standa vörð um. Loftslagsbreytingar valda súrnun sjávar sem auk áhrifa á vistkerfin geta haft neikvæð áhrif  á nýtingu sjávarauðlinda sem eru mikilvæg efnahag þjóðarinnar. Hvalir eru einir öflugustu náttúrulegu kolefnisfangarar sem fyrir finnast í náttúrunni og hringrás hvala og svifs er ein af meginstoðum lífs í hafinu. Samfylkingin vill banna hvalveiðar.“

Þrátt fyrir þetta lýsti Jóhann Páll yfir stuðningi við ákvörðun Svandísar um að leyfa hvalveiðar í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær. „Samfylkingin hefur verið andsnúin hvalveiðum, það er alveg skýrt í stefnu flokksins en það skiptir máli að gera hlutina rétt og vel. Það þarf að gæta að meðalhófi fyrirsjáanleika fyrir atvinnustarfsemi í landinu og réttmætum væntingum fólks. Þannig að ég tel að þessi ákvörðun sem ráðherra tók í dag sé rétt og eðlileg,“ sagði Jóhann Páll.

Þannig að þið styðjið ákvörðun Svandísar? spurði hálfklumsa fréttamaðurinn. „Já, ég styð ákvörðun Svandísar,“ svaraði Jóhann.

Þetta kallaði á hörð viðbrögð flokksfólks á samfélagsmiðlum. „Einmitt þegar allt gekk upp og vindurinn fyllti út í seglin og við vorum á hraðferð í rétta átt. Þá kemur eitthvað svona! Rökin fyrir þessari ákvörðun eru bull,“ skrifaði Teitur Atlason, formaður Jafnaðarfélagsins Rósarinnar á Facebook. „Sú afstaða Samfylkingarinnar að styðja áframhaldandi hvalveiðar er ótrúlega hryggileg. Til hvers í ósköpunum?“ spurði Þorvaldur Sverrisson auglýsingamaður.

„Þegar ráðherra tekur ákvörðun um að leyfa að nýju hvalveiðar, eftir að hafa tekið ákvörðun um að stöðva þær þar sem veiðiaðferðir voru ekki í samræmi við lög, þurfa rökin fyrir nýju leyfi að styðjast við sömu lög,“ skrifar Helga Vala. „Það eru fyrir því fjölmörg fordæmi að starfsemi sé stöðvuð vegna ófullnægjandi aðbúnaðar eða vinnuaðferða á vinnustöðum og þá er ekki horft á hvort fólk missi vinnu sína eða ekki. Fara verður að lögum við rekstur fyrirtækja, ekki síst matvælafyrirtækja, og á því ber forstjórinn ábyrgð.“

„Ráðherra gat þannig ekki á sínum tíma annað en stöðvað upphaf veiðitímabils fyrst það var niðurstaða hennar og ráðuneytis hennar að fyrirtækið sem stundar veiðar hafi ekki gert slíkt í samræmi við lög og reglur,“ heldur Helga Vala áfram. „Vissulega þarf að gæta meðalhófs, en þegar niðurstaðan um að veiðar samræmist ekki lögum berst seint, og ekki hefur verið brugðist við ábendingum um að veiðar samræmist ekki reglum og lögum vikum og jafnvel mánuðum saman, þá getur ráðherra ekki annað gert en að stöðva veiðarnar. Á rekstrinum ber forstjórinn ábyrgð.“

Og Helga Vala heldur áfram: „Þess vegna er það líka alveg skýrt að þegar ráðherra leyfir veiðar að nýju þarf hann (hún) að færa fyrir því rök að bætt hafi verið úr þeim ágöllum sem leiddu til að veiðar voru stöðvaðar. Það þarf að sýna fram á að rekstraraðilinn hafi bætt svo úr að enginn vafi leiki á að framhald veiða verði þá í samræmi við lög. Mér finnst algjörlega skorta á þessi rök í tilkynningu ráðherra í gær, því það verður ekki gert með setningu nýrrar reglugerðar þegar fyrir liggur að ekki var farið eftir fyrri reglum. Það þarf að vera ljóst að bætt hafi verið úr fyrri ágöllum. Ekkert liggur fyrir um að slíkt hafi verið gert.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí