Eftir hrun stóð íslenska „seðlabeljan“ undir 80% af ábata Samskip Holding

Hugtakið „cash cow“ kemur ítrekað fyrir í samantekt Samkeppniseftirlitsis um samkeppnislagabrot Samskipa. Á einum stað í samantektinni má lesa hvernig Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, gaf „fyrirmæli til stjórnarmanna og lykilstjórnenda um að grípa til aðgerða til að vernda og efla stöðu Samskipa á Íslandi sem „Cash Cow“ fyrir Samskipasamstæðuna („.… maximise the business and protect the Cash Cow which Iceland has been for the Group“.)“ Það var í mars 2008, í aðdraganda efnahagshrunsins.

Eftir hrunið og þær miklu sviptingar sem fylgdu í kjölfarið lifði hugtakið enn góðu lífi innan Samskipa. Þannig sendi framkvæmdastjóri millilandasviðs innan fyrirtækisins forstjóra þess, Ásbirni Gíslasyni, tölvupóst skömmu fyrir jólin 2010. Þeir voru þá staddir í hollensku borginni Rotterdam til að kynna á fundi alþjóðasamsteypunnar, Samskip Holding, uppgjör fyrstu tíu mánaða ársins 2010 og áætlun íslenska félagsins Samskip hf, fyrir árið 2011. Í tölvupóstinum sem framkvæmdastjórinn sendi forstjóranum stóð aðeins ein lína: „The cash cow has arrived“, ásamt viðhengdri mynd af mjólkur kú „og greinilegt,“ samkvæmt Samkeppniseftirlitinu, „að þar var verið að vísa til Samskipa hf. á Íslandi.

„Í þessu sambandi“ segir ennfremur í samantektinni, „er til þess að líta að þrátt fyrir að velta Samskipa á Íslandi á árinu 2009 hafi aðeins verið um fjórðungur af heildarveltu samstæðunnar, aflaði starfsemin á Íslandi um 80% af EBITDA samstæðunnar. Sýnir þetta árangur Samskipa hf. á Íslandi sem „Cash Cow“ fyrir samstæðuna, líkt og aðaleigandinn hafði lagt upp með og gefið fyrirmæli um í aðdraganda hins aukna samráðs á árinu 2008.“

Með því að koma í veg fyrir samkeppni á milli flutningsfélaganna tveggja, Eimskip og Samskip, tókst stjórnendum Samskipa þannig að tryggja gríðarlegan ábata af íslenska rekstrinum „á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls“ eins og segir í samantektinni.

EBITDA og seðlabelja

Gylfi Magnússon prófessor í hagfræði skrifaði svar Vísindavefsins við spurningunni Hvða er EBITDA: „EBITDA er ensk skammstöfun og stendur fyrir Earnings Before Interest, Taxes, Depreciation and Amortization. Með EBITDA er því átt við afkomu fyrirtækja áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta. … Þessi hugtök eru öll notuð til að reyna að varpa ljósi á getu fyrirtækja til að greiða hinum ýmsu kröfuhöfum, það er lánveitendum, eigendum og hinu opinbera. EBITDA á þannig að mæla getu til að skila hagnaði og greiða út arð og til að standa undir greiðslum af lánum og sköttum.“

Freistandi er að þýða hugtakið „cash cow“ á íslensku sem gullgæs, enda vel þekkt orð og felur í sér hliðstæða mynd af húsdýri sem gefur af sér óviðbúið tekjustreymi með lítilli fyrirhöfn. Ólíkt „cash cow“ vísar gullgæsin hins vegar til að minnsta kosti tveggja þekktra sagna, dæmisögu og þjóðsögu. Báðar fela þær í sér einhvers konar siðaboðskap, sem er ólíklegt að bréfritarar Samskipa hafi haft í hyggju. Því verður að teljast nærtækara að beinþýða „cash cow“ á íslensku sem seðlabelju.

Samskipti innan Samskipa-samsteypunnar gera ljós tengslin milli þessara tveggja fyrirbæra: seðlabeljur koma sér vel fyrir EBITDU fyrirtækja.

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí