Rússar kjósa sér forseta í mars – og Úkraínumenn líklega líka

Forsetakosningar eiga að fara fram í Rússlandi 17. mars á næsta ári og líklegt er að af þeim verði. Og að Vladimír Putín verði kjörinn forseti. Það er hins vegar ekki víst að af forsetakosningum verði í Úkraínu, en þær hefðu átt að fara fram 31. mars, tveimur vikum eftir kosningarnar í Rússlandi. Við innrás rússneska hersins voru sett herlög í Úkraínu og samkvæmt þeim eru kosningar þar með felldar niður. Nú er hins vegar nokkur þrýstingur á úkraínsk stjórnvöld að efna samt til kosninga, bæði frá bandarískum stjórnvöldum og þingmönnum en einnig innanlands. Það gæti því endað með því að þeir Putín og Selenskí myndu báðir að leggja verk sín í dóm kjósenda eftir hálft ár.

Putín þykir heldur hafa hert tök sín í Rússlandi. Það er enginn sjáanlegur sem gæti ógnað honum í kosningum, varla nokkur sem myndi í alvöru bjóða sig fram gegn Putín til að fella hann. Í kosningunum 2018 fékk Putín 77,5% atkvæða, eða svo var okkur sagt. Næstur kom frambjóðandi Kommúnistaflokksins, Pavel Grudinín, með 11,9%. Þar á eftir Vladímír heitinn Sírínovskí með 5,7%. Bæði Sírínovskí og Grudinín voru dyggir stuðningsmenn Putín og engin stjórnarandstaða. Það skiptir því í reynd engu hverjir bjóða sig fram gegn Putín í mars, þeir sem komast á kjörseðil verða menn að hans skapi.

Þannig er staðan nú. En hálft ár er langur tími og margt getur breyst fram að kosningum.

Staðan í Úkraínu eru flóknari og óvissari. Sem fyrr segir voru herlög sett við upphaf innrásar Rússa og þar með féllu kosningar niður. Þetta er ritað í stjórnarskrá. Og við innrásina fylktu landsmenn sér að baki Selenskí forseta, þótt vinsældir hans hefðu dalað jafnt og þétt frá kosningunum 2019 þegar hann fékk 30% atkvæða í fyrri umferð og svo 73% í seinni umferðinni. Þá sigraði Selenskí frambjóðenda Evrópskrar samstöðu, Petro Poroshenkó, örugglega. Í síðustu skoðanakönnunum fyrir innrás Rússa nutu þessir tveir mesta fylgis; Selenskí mældist með um 24% og Poroshenkó með um 20%. En svo kom innrásin og í einu könnuninni eftir innrás, í mars í fyrra, var fylgi Selenskí komið upp í 81%.

En í sumar hefur dregið úr einörðum stuðningi Úkraínumanna við Selenskí. Stríðið tekur sinn toll og það er varla til sá Úkraínumaður sem ekki hefur misst fjölskyldumeðlim eða vin í stríðnu. Mannfallið er hörmulegt. En það er spillingin sem laskar Selenskí.

Í einnig könnun kom fram að 70% landsmanna töldu Selenskí bera ábyrgð á spillingunni í landinu, þótt hann hafi verið kosinn til að uppræta hana. Það spillingarmál sem hefur reynst Selenskí erfiðast tengist herkvaðningu, en svo til öll sú deild sem sá um það verkefni hefur verið leyst upp og helstu stjórnendur handteknir og ákærðir eftir að kom í ljós að menn gátu keypt sig frá herþjónustu. Fyrir eina til tvær milljónir króna fengu menn úrskurð um að þeir væru ekki hæfir til herþjónustu af heilsufarsástæðum. Og margir þeirra sem fengu slík vottorð fengu jafnframt leyfi til að yfirgefa landið. Það voru því í reynd fyrst og fremst synir af fátækari heimilum sem voru sendir á vígvöllinn.

Viðbrögð Selenskí voru að setja lög sem skilgreindu alvarlega spillingu sem landráð. En það sló ekki á gagnrýni á hann. Því hefur verið haldið fram að með þessu flytjist alvarlegustu spillingarmálin sem tengjast hæðst setta fólkinu frá almennri lögreglu og saksóknurum yfir til leyniþjónustunnar, sem heyrir undir forsetans. Með nýju lögunum dró Selenskí í raun til sín rannsókn alvarlegust málanna, sem jafnframt eru næst miðju valdsins og honum sjálfum.

Og það er vegna þessa kurr sem fólkið á bak við Selenskí er farið að velta fyrir sér kosningum. Markmiðið væri þá að Selenskí myndi vinna afgerandi sigur og fá óskorað umboð frá þjóðinni. Stuðningsfólk hans er því farið að taka undir vaxandi kröfur úr vestri, einkum frá Bandaríkjunum, um að kosningar verði haldnar. Frá sjónarhóli bandarískra stjórnmálamanna þykir það ekki koma vel út heimafyrir ef kosningar fara fram í Rússlandi en ekki í Úkraínu. Stjórnmálafólk í Bandaríkjunum leitar til kjósenda og skattgreiðenda um að styðja Úkraínu með gríðarlegum fjárútlátum í nafni þess að Úkraínumenn séu útvörður lýðræðis og vestrænna gilda. Þá passar illa að ekki sé kosið þar á sama tíma og kosningar eru haldnar í Rússlandi, sem sagt er að sé alræðisríki.

Ef af kosningum verður mun Selenskí fá gegn sér frambjóðendur sem munu keppa við hann af meiri alvöru en keppinautar Putíns. Selenskí nýtur enn mikils stuðnings, en nú heyrast raddir um að hann sé frábær sölumaður úkraínskra hagsmuna á erlendum vettvangi og mikil hetja á Vesturlöndum en stjórn hans innanlands gangi ekki eins vel. Sem kannski er skiljanlegt. Það er nánast ómögulegt að stjórna Úkraínu svo vel sé. Það reyndist öllum ómögulegt áratugina fyrir stríðið. Og það varð ekkert léttara eftir að stríðið braust út. Krafan er að Selenskí sé ekki bara frábær sölumaður, skarpur og kjarkaður herforingi og upprætari spillingar heldur líka réttlátur landsfaðir, snjall stjórnandi efnahagsmála og uppbyggjandi innviða. Auðvitað stendur enginn maður undir þessum kröfum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí