Stefán segir Ólaf Margeirsson vera á villigötum

„Í nýlegu viðtali á Samstöðinni segir Ólafur að „byggja eigi fleiri íbúðir en ekki að hjálpa fólki að kaupa þær á sífellt hærra verði“. Hann segir einnig að æskilegt sé að miklu fleira fólk verði á leigumarkaði til lengdar. Við þetta þarf að gera alvarlegar athugasemdir,“ skrifar Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu á Facebook.

„Hvaðan fær Ólafur þá hugmynd að verið sé að hjálpa fólki að kaupa íbúðir á sífellt hærra verði?“ spyr Stefán. „Veit hann ekki að það hefur verið gert svo miklu erfiðara fyrir allt yngra og tekjulægra fólk á Íslandi að kaupa íbúðir á síhækkandi verði, meira og minna frá árinu 2012? Í reynd hefur verið dregið stórlega úr greiðslu vaxtabóta frá 2012, á sama tíma og íbúðaverð hefur stórhækkað, sérstaklega mikið árin 2016-2017 og eftir 2020. Stuðningur við íbúðarkaup fyrir tekjulægri hópa hefur sem sagt verið nær eyðilagður frá 2012 til nútímans – á sama tíma og íbúðaverð hækkaði meira á Íslandi en annars staðar í Evrópu!“

„Á sama tíma var heimilað að nýta séreignasparnað skattfrjálst til greiðslu íbúðaskulda – en það úrræði nýtist fyrst og fremst tekjuhærri hópum, eins og greiningardeild ASÍ hefur sýnt. Það eru einmitt tekjuhærri hóparnir sem ýta íbúðaverðinu upp. Að styðja þá er því bæði óþarft og skaðlegt. Hins vegar þarf að gera tekjulægri hópum aftur kleift að eignast íbúðarhúsnæði,“ skrifar Stefán.

Og svo áfram: „Vissulega þarf að byggja meira, en vegna methækkana á íbúðaverði frá 2010 (í samanburði við önnur Evrópulönd) þá er búið að verðleggja stóran hluta tekjulægri hópa út af markaðinum. Hvað halda menn að það tæki mörg ár að búa til slíkt offramboð af íbúðum á Íslandi að verð lækkaði aftur til þess stigs sem var um 2010? Á sama tíma og þjóðinni fjölgar um 10-15 þúsund manns á ári, mest með auknum fjölda innflytjenda. Slíkt er auðvitað ómögulegt.

Auk þess er enginn vilji til þess að gera meirihluta Íslendinga að leigjendum fyrir lífsstíð. Nærri 90% Íslendinga vilja ekki vera á leigumarkaði til frambúðar, skv. könnunum á búsetuóskum. Þorri verkafólks sem hefur náð 30 ára aldri vill eignast eigin íbúð. Það er því ekki tímabært að hverfa frá séreignastefnu í húsnæðismálum. Slík stefnubreyting myndi einungis fela í sér að tekjulægri helmingi þjóðarinnar stæði einungis til boða að vera eignalausir leiguliðar fyrir lífstíð.

Það dugir ekki eitt og sér að byggja meira, þó það sé mikilvægt. Það þarf líka að stórefla húsnæðisstuðning við tekjulægri hópa, með því að endurheimta það sem hefur tapast af greiðslum vaxtabóta frá 2012 eða svo. Ef það er ekki gert þá verður verkafólki og yngri kynslóðum sem ekki búa að vel efnuðum foreldrum varanlega úthýst af íbúðaeigendamarkaði.

Menn mættu muna það að verkamannabústaðakerfið gerði láglaunafólki kleift að eignast íbúð yfir fjölskylduna með hóflegum byggingarkostnaði og niðurgreiðslum á vaxtakostnaði, líkt og vaxtabótakerfið gerði síðar. Við þurfum að endurreisa þá stefnu en ekki gefast upp á því að verja og bæta húsnæðiskjör lægri tekjuhópa.“

Hér er fréttin sem Stefán vísar til: Þarf að byggja íbúðir en ekki að hjálpa fólki að kaupa þær á sífellt hærra verði.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí