0% hagvöxtur á mann frá 2017, velferð skert um einn Landspítala á ári – ætla stjórnvöld áfram sömu braut?

„Forseti. Hvernig gengur?“ hóf Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræðu sína í óundirbúnum fyrirspurnatíma Alþingis nú á fimmtudagsmorgun og lét svo dynja á ríkisstjórninni fyrir efnahagsstjórn landsins.

„Hagvöxtur á mann frá árinu 2017 er 0%, 8% verðbólga, yfir 9% vextir og 46 milljarða halli á ríkissjóði, velferðarkerfi sem er í vanda, mikilvægar stofnanir eru komnar að fótum fram eins og t.d. Landhelgisgæslan. Þetta er staðan og þetta er veruleikinn sem blasir við fólki um land allt. Á sama tíma sjáum við stjórnmálaflokk sem er stoltur af þessu ástandi. Sjálfstæðisflokkurinn hyllir forvera hæstvirts fjármálaráðherra og stærir sig af því að hafa á tíu árum tekið 95 milljarða út úr árlegum tekjustofni hins opinbera. Það er sama upphæð og fer í rekstur Landspítalans á næsta ári eða tvöföld sú upphæð sem þyrfti til að skrúfa fyrir halla ríkissjóðs.“

Lækka skatta mest á þeim sem standa best

Kristrún sagði Framsókn og VG hafa leyft þessu að gerast „en Sjálfstæðisflokkurinn stærir sig beinlínis af því að veikja velferðina. Þessir þrír flokkar hafa tekið 95 milljarða út úr velferðarkerfinu á hverju einasta ári. Þau hafa tekið rekstur eins Landspítala út úr tekjustofnum hins opinbera. Það er samhengi á milli skatta og velferðar. Velferð verður ekki til úr engu þó að stjórnarflokkarnir hafa reynt að stilla málum þannig upp á undanförnum árum með dvínandi trausti. Og hvernig gengur? Skoðum tímabilið frá 2017: Hagvöxtur á mann 0, í raun niður, verðbólga upp, vextir upp, velferð niður, barnabætur og vaxtabætur niður, húsnæðisverð og leiguverð upp, gjöld á almenning upp og efnahagslegur stöðugleiki er enginn. Stjórnarflokkarnir þrír hafa lækkað skatta mest á þeim sem standa best en á sama tíma hefur allt annað í hagkerfinu hækkað nema það sem við viljum sjá að hækki.“

Ræðunni lauk með fyrirspurn: „Ég vil því spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra: Ætlar ráðherra að gera meira af því sama; taka tugi milljarða út úr velferðarkerfinu okkar, halda áfram að veikja velferðina, mikilvægar stofnanir og fjárfestingu í innviðum þjóðarinnar?“

Ráðherra segir stéttarfélögin hafa rétt jöfnuna af

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurninni og byrjaði á að segjast ósammála Kristrúnu í grundvallaratriðum: „Ég get alveg staðið hér og tekið undir það og bakkað það upp að mér þykir góð hugmynd almennt að lækka skatta og gjöld.“ Hún sagði alrangt að 90 millijarðar hefðu verið teknir úr velferðarkerfinu. „Bíddu, hvað höfum við verið að gera? Við höfum bætt í alls staðar í velferðarkerfinu. Fjármunir sem hafa verið settir í Landspítalann, í heilbrigðiskerfið almennt, í aðra þjónustu á sviði velferðarmála, í það fara peningarnir. Við verjum meiri hluta alls sem við öflum af vinnandi fólki í þessu landi í þessi kerfi og við höfum bætt í þau þannig að það er einfaldlega rangt að við höfum tekið út úr velferðarkerfinu 90 milljarða. Við höfum einmitt gert hið öfuga, við höfum bætt í velferðarkerfið.“

Það mátti skilja á máli ráðherra að stjórnvöld reiði sig á að kjarabarátta stéttarfélaganna skili tekjulægri hópum til baka því sem er skorið niður í útgjöldum til velferðarmála. Ráðherra sagði tekjusöguna sýna að aðilar vinnumarkaðarins hafi „komið því þannig fyrir að laun tekjulægstu tíunda hafa hækkað hlutfallslega meira en annarra tekjutíunda“. Þá hélt hún því einnig fram að tekjuskattsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur farið í hafi „nýst þeim tekjulægstu meira heldur en öðrum tekjuhópum. Það er sú pólitík sem hér hefur verið keyrð og þess vegna áttu þessir 90 milljarðar, sem háttvirtur þingmaður nefnir að séu ekki lengur teknir í skatta, áður heima á heimilum tekjulægstu hópanna að uppistöðu til.“

„Það er rangt,“ ítrekaði Þórdís „að við höfum tekið 90 milljarða úr velferðarkerfinu og það er rangt að við höfum verið að lækka skatta mest á þá sem hæst laun hafa á kostnað þeirra sem minnst hafa.“

Ráðlagði ráðherra að kynna sér tekjudreifinguna

Þegar Kristrún tók aftur til máls sagði hún ráðherrann ganga of langt. „Ég átta mig alveg á því að það er pólitískur munur hérna í gangi en við sjáum það öll ef við horfum á velferðarkerfin okkar að það hefur verið gengið of nærri þeim. Og þetta er skuld sem er að magnast upp fyrir komandi kynslóðir, kerfi sem eru brotin niður og munu bitna á þessum kynslóðum, vegna þess að á einhverjum tímapunkti gengurðu það langt að það er ekki hægt að gera við kerfin.“

Kristrún ráðlagði fjármálaráðherra að kynna sér tekjudreifinguna í landinu „og átta sig á því að það verða svo sannarlega ekki teknir 90 milljarðar af tekjulægsta fólkinu í landinu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí