„Enginn munur er því lengur á utanríkismálastefnu VG og Valhallar“

„Vestræn valdastétt vorra daga hefur sannarlega náð að skrifa sig á blöð sögunnar. Ekki fyrir að vera haldin mikilli leiðtogafærni, ekki fyrir að geta leyst vandamál, ekki fyrir að gera líf almennings betri. Ekki fyrir að stuðla að friði. Ekki fyrir að auka jöfnuð og minnka misskiptingu. Nei, hún kemst á blöð sögunnar og verður lengi í minnum höfð fyrir að gera ekkert af ofantöldu, heldur einmitt auka með markvissum hætti á öll þessi vandamál. Og mörg önnur sem hér eru ekki upp talin.“

Þetta skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í pistli sem hún birtir á Facebook. Hún tekur saman þrjú dæmi um dauð stjórnmál sem fnykurinn liggur af. Í fyrsta lagi nefnir hún hvernig sumir hafa viljað slá Bjarna Benediktsson, fyrrverandi fjármálaráðherra, til riddara fyrir það eitt að hafa sagt af sér embætti.

„Við hér á Íslandi sjáum getuleysi og vankunnáttu og áhugaleysi valdastéttarinna á lífi venjulegs fólks með einstaklega skýrum hætti nákvæmlega núna. Fjármálaráðherra segir af sér þegar að hann kemst ekki upp með það lengur, vegna fjölda spillingarmála og afglapa, að láta sem hann sé guðs útvaldi framkvæmdastjóri ríkisfjármála. Samstundis stígur forsætisráðherra, sem er jafnframt formaður flokks sem enn heitir Vinstri hreyfingin grænt framboð af einhverjum illskiljanlegum ástæðum, fram til að ausa hann lofi fyrir fordæmalausa snilld og afburða mannkosti. Segist barmafull af óbilandi trausti. Á manni sem að 5 mínútum áður tilkynnti þjóðinni um að hann gæti ekki verið fjármálaráðherra lengur af því að hann seldi pabba sínum banka. Allt venjulegt fólk situr furðu lostið og líður eins og því hafi verið byrlað ofskynjunar-ólyfjan,“ skrifar Sólveig og heldur áfram:

„Á sama tíma og þessi ether-víma dembist yfir okkur sjáum við fréttir um að ríflega 70% samdráttur sé í uppbyggingu nýs húsnæðis. Því er spáð að jafnvel enn minna verði byggt á næstu árum. Þetta er staðan þrátt fyrir gríðarlega fólksfjölgun á landinu, sem að heldur áfram á komandi árum. Þetta er staðan þrátt fyrir að staða leigjenda sé þannig að verkafólk er farið að greiða 60% (og stundum meira, sum eru komin upp í 70%) af sínum ráðstöfunartekjum til meðlima eignastéttarinnar, bara til að tryggja sér þak yfir höfuðið.“

Hún bendir svo á að hvernig VG og Sjálfstæðisflokkurinn hafa endanlega gengið í eina sæng hvað varðar utanríkismál. „Á sama tíma og vinirnir í stjórnarráðinu draga sig í hlé til að plotta hvernig hægt sé að passa að Bjarni Benediktsson verði áfram einn af flottustu strákum landsins, helst án þess að þau verði of mikið aðhlátursefni hjá alþýðufólki, ganga VG og Sjálfstæðisflokkurinn endanlega í eina sæng með því að sameina og samræma afstöðuna í utanríkismálum. Liðin er sú tíð að VG berjist gegn hernaði og heimsvaldastefnu. Liðin er sú tíð að VG vilji ekki valda þjáningu og dauða saklausra borgara, eins og enn stendur í stefnu flokksins, sem að gleymst hefur að uppfæra. Liðin er sú tíð að VG telji íslensk stjórnvöld eigi að hafna hernaðaríhlutunum, eigi að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun, og  eigi ekki að tala þátt í að valda þjáningu og dauða saklausra borgara. Ekkert farewell to arms kjaftæði lengur. Nei, nú hafa VG og Sjálfstæðisflokkurinn sameinast í Utanríkismálanefnd Alþingis í því að hvetja Ísrael áfram í trylltum hefndar-blóðþorstanum, af því að Ísrael megi og eigi að “verja” sig. Enginn munur er því lengur á utanríkismálastefnu VG og Valhallar. Ekkert bakland virðist vera eftir í VG sem að rís upp gegn þessari svívirðilegu atburðarás. Flokkurinn er ekkert nema samkomulag einstaklinga um að völd séu góð, og að þátttaka í stjórnmálastarfi sé ekkert nema gott karíer-move með góðum launum,“ segir Sólveig.

Hún segir að þjóðin eigi betra skilið en þetta, hún eigi skilið stjórnmálafólk sem býr í raunheimum. „Ég vona af öllu hjarta að við komumst hratt af þessum hrikalega sjúka stað sem við erum lent á. Þessum stað skeytingarleysis um það sem skiptir máli og manískrar tilbeiðslu fólks sem er sjúkt í vegtyllur og völd á því versta sem mannleg tilvera bíður uppá. Við getum einfaldlega ekki sætt okkur við meira af því sama. Meiri lygar, meiri svik, meiri spillingu, meiri grimmd. Við eigum skilið alvöru stjórnmál af því að við erum alvöru fólk sem býr í raunheimum. Við getum ekki látið fólkið í speglasal nýfrjálshyggjunnar og heimsvaldastefnunnar halda áfram að fokka með okkur öll. Við sjálf getum varla sætt okkur við að verða aðhlátursefni?,“ spyr Sólveig.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí