Í dag, mánudaginn 9. október 2023, er afmælisdagur Johns Lennon, sem hefði nú orðið 83 ára gamall, væri hann enn á lífi. Undanliðin 16 ár varðar sá dagur Ísland sérstaklega, eða í öllu falli næturhimininn yfir Reykjavík, því þennan dag er á hverju ári kveikt á Friðarsúlunni í Viðey, listaverki Yoko Ono. Súlan, sem á ensku nefnist Imagine Peace Tower, teygir sig til himins í 60 nætur, til 8. desember, dagsins sem John Lennon var skotinn til bana fyrir utan íbúðabygginguna þar sem þau hjón bjuggu, á Manhattan í New York borg, árið 1980.
Titill verksins vísar til lagsins Imagine, sem þau hjón eru bæði skráð höfundar að. Um texta lagsins er haft eftir Lennon: „Ímyndaðu þér að það væru ekki lengur nein trúarbrögð, engin lönd, engin stjórnmál – það er hreinlega Kommúnistaávarpið, þó að ég sé ekki kommúnisti sérstaklega og tilheyri engri hreyfingu.“ Hvort verkið, Friðarsúlan, þykir því þarfari áminning, ádrepa eða vonarglæta eftir því sem veröldin rambar á barmi víðtækari ófriðar, eða kaldranalegra eftir því sem misræmi þess við veröldina umleikis verður skarpara, veltur áreiðanlega á lundarfari ekki síður en túlkunarleiðum.
Samkvæmt tilkynningu Reykjavíkurborgar um gangsetningu súlunnar býðst almenningi far með ferjunni til Viðeyjar, endurgjaldslaust, í boði Yoko Ono. Dagskráin í Viðey hefst upp úr klukkan hálfátta í kvöld og nær hápunkti þegar súlan er tendruð klukkan átta. Eins og áður hefur verið getið er viðameiri dagskrá tengd listaverkinu og stofnun sem sett var á laggirnar í tengslum við það, og má þar helst geta ráðstefnunnar The Imagine Forum, sem í ár ber yfirskriftina „Nordic Solidarity for Peace.“
Breytt áform: Engin sigling
Á mánudag birti Reykjavíkurborg tilkynningu um breytt áform: ekki verður siglt til Viðeyjar og engin dagskrá fer þar fram. Nánar hér.