Þingmenn Pírata og Flokks fólksins lögðu um miðjan þennan mánuð fram beiðni um skýrslu frá Fjármála- og efnahagsráðherra, um það hversu hagnaðardrifin verðbólga síðustu tveggja ára er og hver hlutur stórra og millistórra fyrirtækja er í þeirri verðbólgu. Í beiðninni er miðað við fyrirtæki með veltu yfir 500 milljónum króna.
Ráðherra er skylt að verða við því þegar þingið biður um skýrslu, og hefð er fyrir því að þingmenn kjósi með eða standi að minnsta kosti ekki í vegi fyrir skýrslubeiðnum sem aðrir leggja fyrir þingið, enda eru slíkar beiðnir, ásamt viðaminni fyrirspurnum, ein helsta leið Alþingis til að verða sér úti um upplýsingar sem ráðuneytin eiga annars ekki sjálf frumkvæði að því að veita. Í þetta sinn bar þó öðruvísi við.
Í stað þess að skýrslubeiðnin væri einfaldlega tekin til atvkæðagreiðslu, samþykkt, og umræður geymdar þar til umbeðin gögn lægju fyrir, þá tók Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, til máls og andmælti skýrslubeiðninni. Hann sagðist almennt „seinþreyttur til vandræða“ og hefði enda „samþykkt ýmsar skýrslubeiðnir um alls konar.“ En hér sagðist hann staldra við og telja „að þessi skýrslubeiðni sé algerlega ómarktæk og eigi ekki rétt á sér.“ Síðan útskýrði hann í 74 orðum hverjar væru orsakir verðbólgu. Hann hefði ekki þurft að hafa ræðuna svo langa því útskýring hans var í stuttu máli að eina orsök verðbólgu væru laun, en eftirfarandi orð hafði hann um efnið:
„Ef þarf að velta fyrir sér hver er ástæða verðbólgu þá er það alveg ljóst að samband verðlags og launa er ótvírætt. Við getum alveg farið yfir það. Þetta liggur fyrir. Við getum rifjað það upp á níunda áratugnum þegar laun hækkuðu um 1.300%. Þá hækkaði verðlag um 1.500%, kaupmáttur rýrnaði, verðbólgan árið 1983 fór í 86% á ári en þá voru verðhækkanir á þriggja mánaða fresti, launahækkanir á þriggja mánaða fresti um 15%.“
Í kjölfar þessarar útskýringar á því af hverju verðbólga stafaði og hvernig óþarft væri að grennslast frekar fyrir um það sagði þingmaðurinn: „Þessi skýrslubeiðni á ekki rétt á sér og ég get ekki samþykkt hana.“
Vert er að nefna að samkvæmt æviágripi á vef Alþingis býr Teitur ekki að menntun í hagfræði.
Hagnaðardrifin verðbólga viðurkennd af seðlabanka Bretlands
Það kemur ekki á óvart að þessari ræðu hafi verið svarað. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að sér þættu nýmæli að heyra að það stæði til að greiða atkvæði gegn skýrslubeiðni og „áhugavert að heyra að það er vegna skoðana háttvirts þingmanns á hagfræði.“ Hún útskýrði fyrir fyrri ræðumanni að það væri almennt viðurkennt, óháð pólitík, að verðbólga gæti verið hagnaðardrifin:
„Það er nú þannig að í Bretlandi t.d. er bara viðurkennt af Seðlabankanum þar í landi að verðbólgan þar er hagnaðardrifin að stóru leyti út af hagnaði fyrirtækja. Þetta hefur verið kallað græðgisbólga eða græðgisverðbólga og þetta hefur verið rætt í mörgum virtum, ekkert allt of vinstri sinnuðum heldur frekar hægri sinnuðum, hagfræðiritum og er bara viðurkennt sem ákveðið atriði þegar kemur að verðbólgunni. Þannig að ég vil bara biðja háttvirtan þingmann sem kom hingað upp á undan mér að lesa sér aðeins til í hagfræðinni sinni.“
Næsti ræðumaður, Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist ætla að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um skýrslubeiðnina. Þó steig Teitur Björn aftur í ræðustól og sagðist ekki ætla að „munnhöggvast hér um hvað er rétt og rangt í þessu“ en hann liti svo á að skýrslubeiðnin væri „illa unnin, illa rökstudd og sé til þess fallin eiginlega að þyrla upp einhverju ryki þegar verið er að horfa á hver er meginorsök verðbólgunnar.“
Fleiri tóku til máls. Svo fór þó að lokum að skýrslubeiðnin var samþykkt, þrátt fyrir fullvissu þingmanns um að um orsakir verðbólgu væri ekkert að segja sem ekki kæmist fyrir í hans eigin 74 orðum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun því skila þinginu mati á því, innan tíu vikna ef það fer ekki fram á frekari frest, að hversu miklu leyti verðbólgan í landinu hefur verið hagnaðardrifin.
Umræðan fór fram fyrir réttri viku, miðvikudaginn 18. október, og má nálgast í heild á vef Alþingis.