Björn Birgisson, búsettur í Grindavík, segir að það hafi verið óraunverulegt að snúa aftur til Grindavíkur fyrr í dag. Þangað fór hann til að sækja ýmsar nauðsynjar. Björn segir að húsið hafi verið við fyrstu sýn óskemmt, en innanhúss hafi verið eins og sprengja hafi fallið á húsið.
„Kveðja? Árni Stefán sonur minn fór með mér til Grindavíkur í dag. Hefði varla treyst mér til fararinnar án hans. Náðum í eitt og annað nauðsynlegt í rauða Spýtukofanum, sem virtist við fyrstu sýn óskemmdur, en innanhúss var sem sprengja hefði fallið á húsið. Allt á rúi og stúi,“ skrifar Björn á Facebook.
Hann segir að sig gruni, því miður, að þetta hafi verið kveðjustund. „Tilfinningin var óraunveruleg og kom meira yfir mig þegar snúið var á „heimleið“. Var þetta kveðjustund? Það veit enginn með neinni vissu, en mig grunar að svo hafi verið. En þetta var sárt, það væru bara mannalæti að viðurkenna það ekki. Lífið heldur áfram og við erum umvafin ást og umhyggju,“ segir Björn og birtir myndina sem má sjá hér fyrir neðan.