Nú þegar svo virðist sem það muni ekki gjósa í Grindavík eru íbúar farnir að huga að framhaldinu. Einn þeirra er Björn Birgisson en hann telur að kostnaður við að koma bænum í sæmilegt horf muni hlaupa á milljörðum króna.
„Ljóst er að í Grindavík er mikið starf framundan við að koma öllum lögnum í lag. Landið hefur sigið og hætt er við að halli á leiðslum sé ekki réttur eftir allt það sem gengið hefur á. Ekki er ólíklegt að kostnaður verði mældur í milljörðum frekar en í hundruðum milljóna,“ segir Björn á Facebook.
Hann veltir því fyrir sér hver muni borga fyrir þetta. „Eftir því sem ég kemst næst þá eru allar lagnir í jörðu tryggðar fyrir náttúruhamförum, en götur og gangstéttir ekki. Sé að miklar umræður hafa skapast um fasteignagjöld næsta árs í Grindavík. Fyrir liggur að bæjarsjóður þarf að ráðast í mýmörg verkefni, alls kyns lagfæringar sem ekki njóta tryggingaverndar,“ segir Björn.
Hann segir að geti reynst snúið ef allir íbúar Grindavíkur neiti að borga fasteignaskatta. „Hvernig á það að vera hægt ef allir harðneita að borga sína fasteignaskatta? Ef enginn vill borga gerist ekkert. Það vitum við öll, en getum öll orðið pirruð þegar ástandið er óþolandi og tjáð okkur samkvæmt því!“