Nú á miðvikudag var sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg dregin fyrir dómstól í Bretlandi, en hún var handtekin um miðjan síðasta mánuð, á mótmælasamkomu í London. Thunberg er, ásamt nokkrum öðrum, gefið að sök að hafa raskað allsherjarreglu þegar hún og rúmur tugur annarra mótmælenda læstu saman handleggjum til að hindra inngöngu fólks á fimm stjörnu hótelið Intercontinental Hotel, þar sem ráðstefna stjórnvalda og olíuframleiðenda fór fram. Thunberg sagðist ekki sek í málinu.
Hin árlega ráðstefna kallaðist áratugum saman einfaldlega „Oil and money“ eða Olíu- og peninga-ráðstefnan en hefur nýverið breytt ásýnd og nefnist nú „The Energy Intelligence Forum“, sem mætti ef til vill þýða sem samráðsvettvang um orku og greind.
Fyrir dómstólnum sagði Thunberg til nafns síns og fæðingardags, eins og hún var krafin um, og tók afstöðu til ákærunnar, sem fyrr greinir. Annars tjáði hún sig hvorki við réttinn né við fjölmiðla. Hópur mótmælenda var staddur við bygginguna þegar hún steig út og hrópaði slagorðið „Climate protest is not a crime“ – „Loftslagsmótmæli eru ekki glæpur“.
Vert er að nefna að ljósmyndin sem fylgir þessari frétt er skjáskot úr myndbandi af handtöku Thunberg þann 17. október en ekki frá réttinum í dag. Thunberg sætir ekki varðhaldi og ferðaðist á eigin vegum til réttarins.
Réttarhöld í málinu munu hefjast eftir áramót, þann 1. febrúar nk.