Myndin sem fylgir fréttinni er mynd sem mun aldrei komast á heimsminjaskrá en á afrekaskrá ríkisstjórnarinnar á hún heima.
Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og þingmaður svo nokkuð sé nefnt, en hann tók myndina af Smáríkinu sem hann segir ólöglega verslun með áfengi „sem fær þrifist í skjóli ríkisvalds sem lætur lögleysuna viðgangast óáreitta“ eins og hann orðar það í pistli á heimasíðu.
„Augljóst er að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja gera netverslun löglega og vilja jafnframt opna á rýmri reglur um áfengissölu, helst ganga endanlega frá Áfengis- og tóksverslun ríkisins. Framsókn og VG eru þessu andvíg en hafa aldrei þorað að setja hnefann í borðið til að trufla ekki teboðið sem staðið hefur í sjö ár í Stjórnarráði Íslands,“ segir Ögmundur.
„En vegna þess að ekkert gerist af hálfu stjórnvalda og á meðan þeir aðilar sem eiga að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum í landinu halda að sér höndum, er allt á fullri ferð hjá þeim sem nýta sér tækifærið sem með þessu býðst. Þeir stunda sína ólöglegu netverslun, opna “netsölubúðir” og eru stórfyrirtækin Heimkaup og Costco stórtækust. Aðrir eru smærri í sniðum en er engu að síður að verða vel ágengt við að maka krókinn.“
Ögmundur rifjar upp að þegar Costco kom til landsins byrjaði samsteypan á því að senda Alþingi bréf um hvernig lögum skyldi breytt um áfengissölu og síðan einnig um innflutning á hráu kjöti.
„Ýmsum brá við frekjuna og yfirganginn en mundu svo að þessu er Costco vant heima fyrir í Bandaríkjunum. Þar ráða stórfyrirtækin, stjórnvöldin hlýða þeim.“
Og nú er þetta orðið eins hér á landi að sögn ráðherrans fyrrvverandi.
„Þegar búið að opna fyrir hráa kjötið og komið að brennivíninu. Og þar er allt komið í gang. Allt eins og heima! Fjárgróðaöflin ráða þegar stjórnvöldin hætta að standa almannavaktina.“
Sjá allan pistilinn hér:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-afrekaskra-rikisstjornarinnar?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTAAAR3eIZ0Ra_qHN1taixaNM8GIzNWBcPEOOYHypNwJwFhCy