Gleðigjafinn Margrét Erla Maack segist í pistli sem hún birtir á Facebook og fer nú víða vera illa brennd eftir að hafa verið svokallaður gervi-verktaki hjá Fréttablaðinu, sem var í eigu Helga Magnússonar. Að vera gervi-verktaki er samfélagslegt mein sem furðulítið er rætt, en í stuttu máli þá þýðir það að starfsmaður er ranglega færður til bókar sem verktaki, þrátt fyrir að vera í fullu starfi hjá viðkomandi fyrirtæki. Það þýðir að viðkomandi missir mörg réttindi sem launafólk hefur almennt þökk sé verkalýðsbaráttu síðustu aldar.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Margrétar Erlu í heild sinni.
Í janúar fyrr á þessu ári var hætt að bera Fréttablaðið í hús. Ég ræddi ég við yfirmenn mína um að ef það þyrfti að losa fólk úr vinnu til að spara peninga að ég væri til í að hverfa frá. Lítið var gert úr þessum áhyggjum mínum. „Margrét mín ekki láta svona.“
Í lok mars lýsti svo Torg yfir gjaldþroti. Í kjölfarið var ljóst að ég fengi ekki greidda vinnu mína í mars – enda var ég svokallaður „gerviverktaki.“ Þessi póstur er hvatning til fólks að reyna eftir fremsta megni að forðast slíkar ráðningar og viðskiptasambönd. Engin réttindi, ekki tilkall í ábyrgðarsjóð launa þar sem ég er bara þannig gerð að ef eitthvað dettur niður bý ég til fleiri gigg.
Reikningurinn sem Torg neitar að borga – og í krafti lögmanna sinna af Lex neita að viðurkenna sem forgangskröfu (launakröfu) – er upp á 765.900. Það er andskoti stórt högg að vinna heilan mánuð og fá ekkert af því greitt. Í ofanálag að vera ákveðið andlit sjónvarpsstöðvar þennan tíma. Hvílík vanvirðing.
Í sumar mætti ég svo á eitthvað voðalegt leikrit á Lex, skiptafundur. Þar sem Helgi Magg og Jón Þóris fengu ljósaperumóment um að sækja um pening til fjölmiðlanefndar (sem þeir fengu ekki nb).
Daginn eftir þennan fund hringdi Jón Þórisson í mig og bað mig um að skrifa pistla fyrir DV. Ég hélt að þetta væri símaat, en nei, svo var ekki. Ég væri svo frábær penni og eitthvað. Ég gerði honum ljóst að ég hefði engan áhuga á að vinna fyrir þetta fólk aftur á ævi minni, þau skulduðu mér pening og ég bara gæti ekki unnið fyrir þau. Og fékk þá hið gullna svar: „Þetta er náttúrulega ekki saman fyrirtækið.“
„Nei,“ svaraði ég „en sama fólkið.“
Þarna kristallast kannski munurinn á siðferðinu. Ný kennitala, sama röddin.
Jæja. Ég er tiltölulega búin að vinna mig upp úr þessu fjármálagili með hjálp yfirdráttar og kabarettvina sem voru til í að vera þolinmóð með greiðslur af sýningum. Ég gat samt ekki horft framan í fólkið sem ég skuldaði 20-60 þús kall hér og hvar. En þetta var að takast og ég var farin að sjá til sólar þegar ég fékk ábyrgðarbréf þess efnis að mér bæri að borga til baka síðasta reikning sem ég hafði fengið greiddan frá Torgi – upp á 703.800 krónur.
Ég er búin að vera orðlaus yfir þessu í nokkurn tíma og mjög lítil í mér. Sú litla orka sem ég hef fer í að vera hlý með barninu mínu og ég er svo þakklát fyrir það að vera með viku og viku-forræði til að geta hlaðið mig og unnið á kvöldin. Afsakið kæru vinir og fjölskylda hvað ég hef verið fjarræn og fókuslaus síðustu mánuði.
Í bréfinu var til dæmis sagt að mér ætti að vera dagljóst að Torg hefðu ekki verið borgunaraðilar fyrir reikningnum í ljósi fréttaflutnings af gjaldþrotinu. Að sama skapi langar mig að spyrja er þeim ekki fulljóst að ég er ekki borgunaraðili fyrir þessu, verandi einstæð móðir, en fréttaflutningur af sambandsslitum mínum var birtur í öllum helstu slúðurmiðlum landsins: Smartlandi á mbl, Lífinu á Vísi og DV.is – sem er miðill sem þá var í eigu Torgs – og er ennþá í eigu sama fólks (önnur kennitala samt hah).
Í samstarfi við lögmann minn ákváðum við að bjóða skiptidíl. Þið skuldið mér og nú segið þið mig skulda. Þessu var hafnað með löngum pósti til lögfræðingsins míns og nú var að koma gagntilboð: Að ég megi borga 80% af „skuldinni minni.“
Allt þetta er víst löglegt. Þrotabú Torgs neitar að greiða mér laun því ég var verktaki. Þeir krefja mig um að endurgreiða laun því ég var verktaki. Tveir mánuðir sem ég vann á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vaskinn.
Ég íhuga nú næstu skref og er öll ráðgjöf svo hjartanlega vel þegin, þó ég sé kannski ekki alveg í ástandi til að svara öllu í dag þar sem ég þarf að finna hressið mitt fyrir sýningu kvöldsins. Ég hata hata hata hata að jafnómerkilegir hlutir og peningar skuli hafa svona mikil og langvarandi áhrif á geðheilsu mína.
Minni á að ef þið viljið styðja við þá gert ég komið með pubquiz eða danstíma í vinnuna ykkar í desember og janúar, þið getið keypt miða á sýningarnar mínar – sjá www.margretmaack.com – og svo getið þið líka hætt að opna DV.is eða auglýsa þar. Einnig má kommenta hér fyrirtæki sem Helgi Magnússon á hlut í svo að minnsta kosti ég geti beint viðskiptum mínum annað.
Takk allir elsku vinir og fjölskylda sem hafa knúsað mig og veitt mér stuðning í gegnum þetta. Mér þykir svo vænt um ykkur.
P.S. If you want to know what God thinks about money, look at the people he gave it to