Nú stendur yfir leikur Breiðabliks á móti ísraelska liðinu Tel Aviv Maccabi og hófst fótboltaleikurinn klukkan 13.00 á Kópavogsvelli. Félögin Ísland-Palestína og BDS Ísland boðuðu til mótmæla og eru mótmælendur á svæðinu ásamt Frelsiskórnum með fána palestínsku þjóðarinnar. Einnig eru mættir stuðningsmenn ísraelska fótboltaliðsins eða hersins.
Heyrst hafði fyrir leikinn, m. a. í fréttum RÚV að ísraelskir lögreglumenn myndu vera á staðnum til að verja liðið árásum mótmælenda en heimildarmaður Samstöðvarinnar hafði samband við lögregluna og hefur eftir Sylvíu Lorange hjá Ríkislögreglustjóraembættinu að engin vopn yrðu á svæðinu.
Mótmælendur leggja áherslu á frið og sýna Ísrael rauða spjaldið og í fréttatilkynningu þeirra segir m. a.:
,,Félögin Ísland – Palestína og BDS Ísland – sniðganga fyrir Palestínu, harma þá staðreynd að ísraelskir knattspyrnumenn og konur geti komið til Íslands, á meðan palestínskir íþróttamenn hafa ekki sömu tækifæri. Endalausar árásir Ísraelsmanna á innviði palestínskra íþróttamála og árásir og morð á palestínskum íþróttamönnum eru með öllu óásættanlegar. Aðskilnaðarstefnu Ísraelsmanna, hernám, árásir, morð og eyðileggingu verður að stöðva.“